sunnudagur, 26. september 2010

Íslandsmeistarabærinn Kópavogur.

Blikar í baráttunni. Ég veit ekki hvort fólk almennt skilur það af hverju við gamlir Kópavogsbúar gleðjumst svo mikið yfir góðum sigri Breiðabliks í úrvalsdeild karla í fótbolta. Við sem erum alin upp í þessum bæ höfum lengst af verið í ákveðinni "underdog" stöðu gagnvart grönnum okkar á höfuðbólinu Reykjavík. Við vorum frumbyggjar, göturnar okkar framan af lélegar. Lífsbaráttan var harðari í Kópavogi. Við höfum líklega öll upplifað það að Reykvíkingar hafi horft til okkar með nebbann upp í loftið bara fyrir það að búa í Kópavogi. Viðleitni okkar hefur verið að sanna okkur og sýna þeim að við værum ekki síðri samferðarfólkinu hinum megin við lækinn. Okkur hefur tekist það á öllum sviðum og jafnvel gengið betur í sumu. Mikil uppbygging á sviði íþróttamála er að skila sér. Þótt kvennalið Breiðabliks hafi náð frábærum árangri stóð það alltaf upp á okkur karlana að ná sama árangri. Núna hefur ný kynslóð ungra manna tekist þetta verkefni með miklum sóma. Enn einn sigurinn í sigurgöngu Kópavogs er í höfn. Fallega bænum milli voganna tveggja.

Engin ummæli: