föstudagur, 28. mars 2008

Fjárfest í bifreið.

Nissan Micra. Það bar helst til tíðinda í þessari viku að Sigrún Huld fjárfesti í nýrri bifreið, Nissan Micra árg. 2004. Þetta er laglegasta bifreið og vonandi að hún komi að góðum notum. Nú er hægt að prútta á bílaútsölum og það gerði hún í gærkvöldi.


Renault R4. Fyrsta bifreiðin sem við keyptum var Renault R4 árgerð ca. 1970. Svona lítil frönsk "dolla" nákvæmlega eins og þessi á myndinni. Hún gékk alltaf en var illa einangruð og sætin voru nú æði einföld. Það mundi enginn láta bjóða sér svona þunna bekki í dag til að sitja án nánast strigi milli stólgrindarinnar. Það var svolítið sérstætt við þessa bifreið að skiptingin var skaft sem stóð út úr mælaborðinu og þurfti svolitla lempni til að skipta um gír. Það hefur annars verið í mörgu að snúast hjá okkur frá því við komum frá Svíþjóð í byrjun vikunnar.

Þennan daginn endaði ég á fundi um loðnurannsóknir á Hótel Loftleiðum, afar fróðleg erindi um loðnurannsóknir auk þess sem sjónarmið atvinnugreinarinnar voru reifuð. Enn eru sviptingar á fjármálamarkaði og verða ugglaust um sinn. Þegar svona óróleiki fer af stað veit enginn hversu lengi hann getur staðið. Við getum þó verið viss um að öll él styttir upp um síðir. Það er hinsvegar alvarlegt mál ef sú kenning Seðlabankans á við rök að styðjast að vísvitandi sé verið að grafa undan íslensku fjármálakerfi. Það þarf að kanna rækilega. Kveðja.

Engin ummæli: