fimmtudagur, 23. nóvember 2006

Í minningu Jensínu ömmu.

Jensína Sveinsdóttir Í dag hefði Jensína amma orðið 100 ára. Hún lést þann 5. júní í fyrra á 99.aldursári. Afkomendur hennar hittust í dag heima hjá Helgu Guðmundsdóttur tengdadóttur hennar. Þarna voru margir mættir og gaman að hitta svo stóran hóp barna, barnabarna og barnabarnabarna hennar og frændfólk okkar, auk tveggja vina hennar Ingimundar og Sjafnar sem voru góðir vinir hennar og ferðafélagar. Það er svo margt sem sækir á hugan þegar þessarar merku konu er minnst. Ég las í tilefni dagsins aftur minningargrein sem einn góður ferðafélagi hennar skrifaði í minningu hennar. Komin á áttræðisaldur varð það hennar helsta áhugamál að ferðast um heiminn. Hún fór með ferðafélögum sínum til fjölmargra landa. Grípum aðeins niður í eftirmælunum. "Aðaleinkenni hennar var í okkar huga létt lund og jákvæð afstaða, dugnaður og dulúðleg hógværð og lítillæti." Siðar segir í minningargreininni:"Þá má fullyrða að engin öldruð almúgakona á Íslandi hafi heimsótt svo margar og margvíslegar kirkjur og helgistaði vítt og breitt um heiminn sem hún Jensína okkar gerði." og að lokum segir í greininni: "Enga sveit fann hún þó í útlöndum fallegri en Reykhólasveitina fyrir vestan." Í sérstakri minningu eru fjölmargar stundirnar sem hún kom í heimsókn til pabba og mömmu með Kollu frænku og áður með Bubba frænda og spjallaði um liðnar stundir og daginn og veginn. Jafnan var stutt í glensið og skellihláturinn sem smitaði svo sannarlega út frá sér. Hún hafði ákveðna skoðun á flestum málum og mönnum. Fylgdist vel með afkomendum sínum og því sem gerðist í þjóðmálunum. Hún hafði gaman að íþróttaleikjum og síðast en ekki síst þá voru ferðalög innanlands jafnt sem erlendis henni mikið yndi. Blessuð sé minning þessarar fallegu konu. Kveðja til ykkar allra.

Engin ummæli: