fimmtudagur, 16. nóvember 2006

Góða kvöldið....

Það er brunakuldi úti. Það hefur verið -7°C í dag og 7 vindstig. Það er varla hundi út sigandi. Samt sem áður fórum við Sunna út fyrir kl. 7.00 í morgun í göngutúrinn okkar í dalnum. Nú er hún farin til síns heima. Björn og Gunnhildur eru komin frá Afríku. Ferðin gékk í alla staði vel hjá þeim. Ég fletti upp á sama tíma í fyrra og viti menn 16.nóvember 2005 er svipuð veðurfarslýsing og á við daginn í dag. En á sama tíma fyrir tveimur árum er ekkert skrifað á þessari bloggsíðu. Eins og glöggir lesendur geta séð er ekkert skrifað allan nóvember 2004. Ástæðan er sú að maður var bara búinn þann mánuðinn eftir margra mánaða samningalotu og aðalfund samtakanna. Hafði ekkert að segja í heilan mánuð. Það er með þessar bloggsíður fólks að stundum er hægt að ráða í skrif þess með því að skoða hvað stendur ekki á blogginu og hvenær er ekki bloggað. Þetta að vera með bloggsíðu og vera bloggari er hjá mörgum orðinn lífsstíll. Líklega má segja það um mig að þetta sé hluti af mínum lífsstíl. Sumir leggja mikið upp úr því að fólk láti vita af heimsóknum sínum á bloggsíðuna. Það er velkomið að gera það hjá mér og alltaf gaman, en líka velkomið að vera "huldumaður/huldukona" ef þið kjósið það. Sumum finnst erfitt að láta vita af sér. Mér finnst það líka þegar ég heimsæki sumar bloggsíður. Þetta eru svona hindranir sem maður þarf að yfirvinna aðallega í kollinum. En bloggarinn treystir fólki því hann er að tjá sig oft um all persónuleg mál, mis persónuleg að vísu og hann er oft að gefa nokkuð einlæglega og persónulega innsýn inn í líf sitt. Það er að vísu á forsendum bloggarans. Eigi að síður getur það gefið lesandanum margt að fá innsýn inn í daglegt líf samborgara. Hann getur fengið viðmið við eigið líf og vafstur. Það getur þótt í smáu sé hjálpað honum að takast á við sína daga í þeirri vissu að hann er ekki einn með sín "einstöku" verkefni. Sérhver dagur hjá okkur öllum er barátta við okkur sjálf, lífið, tilveruna og það sem það hefur uppá að bjóða. Bloggarinn er að gefa af sér með því að deila með sér hugrenningum sínum og reynslu úr dagsins önn. Hann leggur traust sitt á lesandann um að hann fari vel með það traust sem hann sýnir honum. Nú svo eru sumir sem eru með allsskonar bull, vilja ekki segja frá því hverjir þeir eru og svoleiðis. Það er líka allt í lagi og segir okkur líka margt. Jæja er þetta ekki orðið nóg í bili. Kveðja til ykkar allra. Hafið það ávallt sem allra best.

Engin ummæli: