laugardagur, 10. janúar 2009

Tólf réttir

Ég var að minnast Sigrúnar tengdamóður minnar í gær. En ég sagði ykkur ekki skemmtilega sögu af henni sem ég ætla að gera í dag. Hún hafði ekki mikinn áhuga á íþróttum. Reyndar tel ég að hún hafi ekki haft nokkurn áhuga á íþróttum. Við urðum því undarandi einu sinni þegar hún upplýsti okkur um það að hún tippaði í enska boltanum. Það sem meira var hún sagði okkur fyrst frá þessu þegar hún hafði eitt sinn fengið ellefu rétta af tólf. Karlkyns vinnufélagar hennar í bankanum sem voru miklir tipparar urðu voðalega fúlir þegar þeir fréttu af þessu og töluðu um byrjanda heppni. Viti menn næstu viku á eftir fær hún tólf rétta af tólf mögulegum. Í þetta skipti fengu vinnufélagarnir hennar ekkert að vita um vinninginn. Hún vildi ekki að karlarnir fréttu þetta vegna niðrandi ummæla vikuna áður. Ég var forvitinn að fá upplýsingar hjá henni eftir hvaða kerfi hún tippaði vegna þess að ég vissi að lítið sem ekkert vissi hún um liðin sjálf. Hún lá ekkert á svarinu, sagðist fylgja þeirri meginreglu að veðja á lið, sem væru frá borgum í Englandi sem henni fyndust áhugaverðar. Það voru reyndar fleiri með með tólf rétta í þetta skipti en vinningsupphæðin dugði fyrir ferð víða um lönd. Ég hinsvegar hætti alveg að tippa eftir að ég komast að þvi hvernig kerfið hennar væri.

Engin ummæli: