fimmtudagur, 1. janúar 2009

High society

Bing Crosby og Grace Kelly. Það er ágætt að byrja nýtt ár með því að halla undir flatt og horfa á High society (1956)með Grace Kelly, Bing Crosby, Frank Sinatra, Celeste Holm og Louis Armstrong syngja og leika perlurnar hans Cole Porter svo sem True love, Mind if I make love to you og Now you has Jazz. Maður lagði ekki svo lítið á sig fyrir 25 árum eða svo að eignast plötuna með þessum lögum og það tókst eftir mikla leit. Loks eftir margar ferðir í plötubúðir víða um lönd fann ég plötuna í Hamborg af öllum stöðum. Nú getur maður stundum séð myndina á gömlu síbylju rásunum í sjónvarpinu og ekkert vandamál að fá lögin. Cole Porter var frábær lagahöfundur og mörg laga hans eru enn í dag sístæðar perlur. Þetta var síðasta myndin sem Grace Kelly lék í áður en hún varð prinsessa í Monaco. En vegur Armstrongs, Crosby og Sinatra átti bara eftir að vaxa. Veröldin væri fátækari án þessara frábæru tónlistarmanna, þvílíkar söngpípur.
Louis Armstrong. Þessi mynd af Louis Armstrong er lokasenan í myndinni. Fá andlit hef ég séð sem endurspeglað hafa meiri gleði og mannkærleika en þessi frábæri tónlistarmaður gat sýnt þrátt fyrir allt það mótlæti sem hann mátti kljást við. Fyrir utan lagaflutninginn í myndinni er það örugglega "ameríska bíóuppeldið", það að það eigi að vera happy ending í öllum myndum, sem gerir að maður getur horft á þessa mynd aftur og aftur.

Engin ummæli: