þriðjudagur, 30. desember 2008

Gleðilegt ár með þökk fyrir það gamla.

Särö - uppáhaldsstaður Við óskum ykkur öllum gleðilegs ár og þökkum það gamla. Árið 2008, árið okkar, eins og það hefur verið nefnt á þessari bloggsíðu síðastliðina tólf mánuði er á enda runnið. Þetta hefur verið gott og viðburðarríkt ár. Það var leikfimistjórinn minn sem gaf árinu fyrirheit í fyrsta leikfimitíma ársins með því að segja að þetta yrði "árið okkar" og ég hef haldið því sem einkunnarorðum. Framan af árinu mætti ég vel í leikfimina en mætingar versnuðu eftir því sem leið á árið af ýmsum ástæðum. Í júlí skilaði ég rótarýkeðjunni til viðtakandi forseta. Þar með lauk þriggja ára setu minni við stjórnarborðið í rótarýklúbbnum mínum. Sá tími hefur verið afar gefandi og mótandi og ég kynntist góðum félögum betur. Ég var útnefndur Poul Harris félagi í klúbbnum á þessu ári og þykir mikið til þess heiðurs koma. Þriðja áhugamálið sem ég hef stundað hefur verið söngurinn með Söngfélagi Skaftfellinga. Ég hef haft mikla ánægju af kórstarfinu á þessu ári. Að vísu missti ég af vortónleikunum að þessu sinni þar sem fór til Montreal í Kanada. Hljóðfærið mitt hef ég einnig lagt nokkra rækt við svo og nótnasafnið. Náði að skrá niður íslensku nóturnar minar í þeim eru vel á fjórða þúsund lög. Bloggið talar að mestu fyrir sig sjálft. Ég hef markvisst bloggað í hverjum mánuði. Ég hef haft gaman af þessu pári þótt bæði sé það sjálfhvert og æði sundurlaust. Nýjasta dellan er að sjálfsögðu Facebook og hefur tíminn þar á stundum verið meiri en góðu hófi gegnir. Ferðalög á árinu 2008 hafa aðallega verið til Svíþjóðar eða alls þrisvar sinnum. Við vorum tíu daga síðastliðið sumar í Svíþjóð og rifjuðum upp gamla tíma m.a. í Gautaborg. Það hefur gengið vel í vinnunni síðastliðið ár og verkefnin verið fjölbreytt. Andskotalaust hefur árið ekki verið. Ég lenti í fyrsta sinn á ævinni inn á sjúkrahúsi vegna veikinda og Sirrý braut fótinn illa nú í desember, en hún kemst yfir það áður en varir. Þeir efnahagslegu erfiðleikar sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er áfall sem snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti um langa framtíð. Allflestir hafa með beinum eða óbeinum hætti orðið fyrir barðinu á kreppunni eða eiga eftir að kenna á henni. Þetta er eitt stærsta sameiginlega verkefnið sem þessi þjóð hefur staðið frammi fyrir á síðari tímum. Það sagði við mig reynslubolti nýlega, sem hefur marga fjöruna sopið að fjármálaerfiðleikarnir væru mannanna verk og þau væru ekki vandamál heldur verkefni sem hægt væri að leysa. Þetta samtal hreif mig og ég trúi því að þetta sé hið rétta viðhorf sigurvegarans við svona aðstæður. Jæja þetta er orðið lengra en til stóð. Bestu kveðjur til ykkar allra.

Engin ummæli: