laugardagur, 27. desember 2008

Fréttir úr jólafríinu

María Magdalena. Veðrið er búið að vera fínt í dag. Fór í göngutúr um hádegisbilið í Fossvogsdalinn og það var mikið af fólki á göngu eins og svo oft á svona dögum. Vorum í jólaboði í Grænuhlíðinni hjá Sigurði og Laugu í gær og fórum í okkar árlegu spurningakeppni - og við unnum í þetta skipti Brekkutúnsbúar. Hjörtur og Sveinn Hjörtur yngri fóru upp í Borgarnes í dag. Annars hefur einhver flensuskítur verið að herja á stórfjölskylduna undanfarna daga og ýmsir frá í gær vegna hennar. Ég er búinn að afreka það að lesa eina jólabók. Las Maríu Magdalenu - vegastjarna eða vændiskona, eftir Þórhall Heimisson. Sérstaklega magnþrungin lýsing hans á hrikalegum aðstæðum í Júdeu fyrir hartnær 2000 árum þegar Rómverjar börðu niður með afar blóðugum hætti uppreisn Gyðinganna. Lesturinn verður enn hugstæðari í ljósi þeirra voðaverka sem Ísraelsmenn hafa unnið í dag í Palestínu með blóðugum árásum á Palestínumenn, þar sem hundruðir liggja í valnum. Það er með ólíkindum hvað saga þessa svæðis er blóði drifin í gegnum aldirnar.

Engin ummæli: