sunnudagur, 7. desember 2008

Þar fór í verra....

Komst ekki til að syngja á tónleikunum með Sköftunum í dag. Eins gott að maður er í 30 manna kór og það skipti ekki sköpum þótt vanti einn. Foreldrarnir voru mættir á tónleikana ásamt rúmlega 200 öðrum. Þannig að ég dreif mig á staðinn um leið og ég losnaði og fagnaði með kórfélögum og fékk kaffi með kökum, þótt kórinn væri búinn að syngja prógrammið. Það er einu sinni svo að hin launaða vinna gengur fyrir áhugamálunum. Annars var ég að lesa Vikuna í dag. Þar eru viðtöl við tvo af uppáhaldsbloggurum mínum sem ég hef fylgst með í tvö til þrjú ár eða svo. Fyrra viðtalið var við hana Hörpu rithöfund, hannyrðakonu og hirðljósmyndara Reynisdranga í Víkurfjöru sem heldur út Vestanpóstinum frá Vík í Mýrdal og Evu ljóðskjáld,norn,samfélagsrýni og uppreisnarkonu sem heldur út blogginu Sápuóperu. Maður hélt í einfeldni sinni að maður ætti þessa bloggara fyrir sig ásamt fáum útvöldum en nú er víst búið að uppgötva þær. Fróðlegt verður að fylgjast með hvernig frægðarkorterið eins og Andy Warhol kallaði það mun móta skrif þeirra í kjölfarið. Vonandi að frægðin fari mjúkum höndum um þessar perlur og neistinn í skrifum þeirra verði áfram tær. Kveðja.

Engin ummæli: