laugardagur, 29. apríl 2017

Ingibjörg Jónsdóttir 6.12.1877 - 29.10.1943

Þessi mynd er af langömmu minni Ingibjörgu Jónsdóttur (6.12.1877 - 29.10. 1943) til vinstri og systir hennar Margréti Jónsdóttur (1878 - 1960) til hægri. Þær voru fæddar að Hömrum í Norðurtungusveit, Borgarfirði. Foreldrar þeirra voru Jón Jónsson (14.2.1847 - 16.3.1885) og Þuríður Ólafsdóttir (31.7.1853 - 20.7.1882). Þær voru fimm systurnar. Móðir þeirra fórst af barnsburði af sjötta barninu, dreng sem hét Pétur Jónsson, aðeins 29 ára gömul. Jón langa, langafi minn lést þremur árum síðar 38 ára gamall. Ættingjar tóku systurnar að sér, og fluttust þær á bæi í Borgarfirðinum, þannig að ekki þurfti að segja þær til sveitar. Ingibjörg bjó síðustu ár sín á Bræðaborgarstíg í Reykjavík og áður Framnesvegi og Sauðagerði. Hún var móðir móðurömmu minnar Stefáníu Stefánsdóttur (9.11.1903 - 1.6.1970). Einna litla sögu kann ég af Ingibjörgu. Hún var trúlofuð Eggerti Jónssyni frá Galtarholti í Borgarfirði. Hann fór vestur um haf og ætlaði hún að fylgja honum og koma með næsta skipi. Hún steig á skipsfjöl eins og ráð var fyrir gert, en var sett í land á Ísafirði vegna mikillar sjóveiki. Aldrei hitti hún kærastann aftur en giftist bróður hans Stefáni Jónssyni (22.6. 1878 - 4.8.1959) og áttu þau saman ellefu börn.
Margrét Jónsdóttir giftist ekki og átti ekki afkomendur. Blessuð sé minning þeirra systra.

Engin ummæli: