föstudagur, 7. apríl 2017

Upplifði ekki fátækt

Var að horfa á Kiljuna (5.apríl) en þar var fjallað um gamla Kópavog. Fátækt fólk en harðduglegt hóf að byggja upp þetta samfélag á kreppuárunum. Ég var 9 mánaða gamall þegar foreldrar mínir fluttu í sumarbústað afa míns og ömmu árið 1953. Mamma og pabbi voru 22 og 23 ára. Þau byggðu hús á sumarbústaðalóðinni, sem var kjallari, hæð og ris. Þar bjuggu þau í 36 ár. Mamma hefur sagt mér að síðustu nóttina sem hún svaf í húsinu árið 1990 hafi hana dreymt að út úr veggjunum hafi sprungið fegurstu blóm og runnar þegar húsið var að kveðja hana, talandi um hús með sál. Ég upplifði ekki fátækt í mínu uppeldi. Bjó í fallegu húsi og alltaf til nóg af öllu. Man þó lítið eftir föður mínum fyrstu árin. Hann vann myrkranna á milli, eins og sagt er. Man atvik sem krakki þegar hann var að koma af næturvakt á morgnana. Hann tók oft tvöfaldar vaktir í vinnunni. Mamma sagði mér í kvöld á rúntinum að það hefði verið honum sérstök ánægja að koma heim úr vinnu á kvöldin og sjá að húsið væri allt uppljómað, þ.e. að ljós væri í gluggum.

Engin ummæli: