mánudagur, 24. apríl 2017

Um uppsveitir Borgarfjarðar

Þessa helgi (21. 0g 22. apríl 2017) fór Söngfélag Skaftfellinga í sína árlegu vorferð. Að þessu sinni var farið um uppsveitir Borgarfjarðar og endað í Borgarnesi, þar sem sungið var í Brákarhlíð og á Landnámssetrinu fyrir gesti og gangandi. Fyrri daginn var lagt af stað frá Reykjavík kl. 10.00. Keyrt var um Hvalfjörð og stoppað við Ferstiklu, en þar var lokað. Þá var næst komið að Fossatúni þar sem fyrrum plötuútgefandinn Steinar Berg rekur þjónustu fyrir ferðamenn. Sungum við nokkur lög fyrir Steinar og starfsfólk hans og gesti. Næst var komið við á Hvanneyri og þar var landbúnaðarsafn skólans skoðað og sungið fyrir fólkið. Frá Hvanneyri var ekið upp í Hvítársíðu, þar sem við gistum á gististaðnum Á á Hvítarsíðu. Við borðuðum kvöldverð og gistum þarna um nóttina. Í dag var ekið um Hvítársíðu í Húsafell að Barnafossum og komið í Reykholt. Þar var sungið í Reykholtskirkju fyrir gesti og gangandi og sr. Geir Waage. Að því loknu var ekið í Borgarnes og sungið á Landnámssetrinu í hádeginu og síðan á dvalarheimilinu Brákarhlíð eins og áður sagði. Það er einstaklega gefandi að ferðast um með þessum hætti. Deila geði með söngfélögum, koma fram og syngja fyrir fólk og ríka þannig umhverfið og gefa með sér af afrakstri vetrarins í söng. Nú um næstu helgi verða vortónleikar kórsins í Seltjarnarneskirkju og vonandi koma sem flestir til að njóta afraksturs vetrarins í söngiðkun okkar sunnudaginn 30. apríl kl. 14.00.

Engin ummæli: