mánudagur, 28. febrúar 2005

Söngur og sjónarspil

Ég las það einhversstaðar um daginn að það leiðist engum sem syngur og eru það orð að sönnu. Var að koma af söngæfingu með Sköftunum. Ágætis æfing með nokkrum skemmtilegum lögum sem við ýmist kunnum eða okkur gékk ágætlega að æfa. Það hefur heldur kólnað aftur. Í kvöld var heiðskírt yfir höfuðborgarsvæðinu og mikið sjónarspil á norður himninum að horfa á norðurljósin. Það er ekki oft sem þau sjást jafn vel og í kvöld. Það vantaði bara að tengja tónlist við sjónarspilið. Þá hefði þetta verið fullkomið því maður sér sveifluna í ljósunum eins og í tónlistinni. Í vikunni var sagt frá því í Mbl. að á næstu árum gætu á annað hundrað Íslendingar haft atvinnu af því að sýna útlendingum norðurljósin. Þetta mun vera töluverður atvinnuvegur í dag í norður héruðum Kanada. Norðurljósin eru "sólvindur" sem eru straumhlaðnar agnir sem segulsvið jarðarinnar ýtir frá jörðu nema á pólunum þar sleppur eitthvað af ögnum í gegn og búa til þetta sjónarspil. Það má lesa um þetta nánar á veraldarvefnum. Alls staðar leynast tækifæri til atvinnusköpunnar aðeins ef augun eru opin. Jæja læt þetta duga í fyrir daginn í dag. Kveðja.

Engin ummæli: