laugardagur, 9. október 2004

Dagur geðfatlaðra, geðveik hetja.

Það mun vera dagur geðfatlaðra í dag. Í tilefni af því selja Kiwanismenn K-lykilinn til styrktar geðfötluðum. Eigi þeir bestu þakkir fyrir framtakið. Ég las í Mbl. í dag 9.október 2004 grein eftir rithöfundinn Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur, sem bar yfirskriftina geðveik hetja. Ég hvet alla til þess að lesa þessa einlægu opinskáu grein. Grein hennar á erindi við okkur öll og er einu orði sagt mannbætandi lestur. Það er dýrmætt að á meðal okkar skuli vera fólk, sem er tilbúið að ganga fram fyrir skjöldu og miðla okkur af reynslu sinni með þeim hætti sem Elísabet gerir og leiða okkur þannig í átt til betri lífsgæða. Það sem fangaði hug minn varðandi þessa grein var upphafið er Elísabet lýsir því að hún hafi þurft að fara inn á geðdeild vegna andlegs álags af of mikilli pressu við að skila verkefni á tilsettum tíma, sem var of snemmt fyrir hennar getu. Þetta er nú nokkuð sem við glímum flest við frá degi til dags. Auðvitað getur slík endalaus pressa brotið okkur öll. Spurningin er einungis hvernig okkur tekst að vinna úr því. Hvort við náum að setja sjálf upp varnir eða þurfum til þess hjálp. Í niðurlagi greinarinnar segir Elísabet: "Geðsjúkdómur er stríð, stríð í höfðinu og kannski byrja öll stríð í höfðinu á einhverjum. En ég ætla að vera kærulaus, fara að sofa, lítill trúður sem málaði engla á geðdeild, hlusta á vindinn eða gera ekki neitt." Í þessum niðurlagsorðum gefur hún okkur lausnina, sem við þurfum til þess að búa til þessar varnir. Enn og aftur bestu þakkir.

Engin ummæli: