fimmtudagur, 20. maí 2004

Uppstigningardagur

Jæja þá er enn einn frídagurinn inn miðri viku á enda runninn. Vinna á morgun og svo til Stockhólms á laugardaginn í 4 daga. Dagurinn hefur verið helgaður útiverkum. Setti saman nýju garðsláttuvélina mína og prófaði hana. Allt gékk að óskum og ég náði næstum því að klára fyrsta slátt sumarsins. Já, ef sumar skyldi kalla. Það féllu nú nokkrar snjóflygsur til jarðar rétt áður en ég fór út um níuleytið í morgun. Það er búið að vera þetta 5 til 7°C í dag og rigning eftir hádegi. Stella og Valdi komu til okkar í lambalæri. Seinni partinn hef ég verið að dunda mér við að spila sálma tengda þessum degi. Ágætis húgarhvíld fólgin í því. Fletti líka sálmasöngsbók, sem Jónas Helgason organisti í Dómkirkjunni gaf út árið 1885! Það hefur verið mikið afrek hjá manninum, enda nær hann að skipa sér á bekk meðal helstu tónlistarfrömuða þessa lands. Þetta er bók sem ég keypti á fornbókasölu og hefur verið mikið notuð og viðgerð. Læt þetta nægja í bili.

Engin ummæli: