laugardagur, 12. júní 2004

Boltinn byrjaður......

Ég hef blendnar tilfinningar gagnvart fótbolta. Hef töluvert horft á hann sérstaklega á námsárunum. Hef gaman af að fylgjast með stóru liðunum og stjörnum þeirra og helstu stórviðburðum í þessari íþrótt. Ég velti því aftur á móti fyrir mér hvort fótboltaleikir séu opíum almennings. Ég er ekki frá því að sé maður með nokkrar sjónvarpsstöðvar þá geti maður allan liðlangan daginn fylgst með fótboltaleikjum einhversstaðar. Það er viðurkennd afsökun fyrir því að sitja á rassinum og gera "ekki neitt" að horfa á leiki og það tilheyrir að sötra bjór á meðan horft er. Það er að ekki að undra að helsti kostunaraðili fótboltaleikja í Evrópu er Carlsberg bjórframleiðandinn sbr. nýlegan sjónvarpsþátt á Sýn þar um. Bjórframleiðendur eru svo snjallir í markaðssetningu sinni að þeir eru búnir að tengja saman bjórþorsta og "áhorfsþorstan" á knattleiki? Allavega er það svo með mig að horfi ég á leiki vaknar alltaf hjá mér bjórlöngun. Þegar maður veltir þessu fyrir sér virðist það liggja í augum uppi að það geti verið sniðugt að tengja ólíkar fíknir saman þ.e. áhorfsfíkn í fótbolta og bjórfíknina. Hverjir eru það svo sem halda uppi aðsókninni að leikjum í Englandi. Er það meðaljóninn eða eru það þeir sem hafa verið slegnir út af vinnumarkaðinum, jafnvel atvinnulausir í fjórða ættlið. Það væri verðugt rannsóknarefni. Jæja best að hætta þessu og fara að horfa á leikinn.

Engin ummæli: