mánudagur, 28. júní 2004

Mánudagssól og sunnudagsbíltúr.

Skrítið þetta veður. Þegar helgin kom var leiðinda rok og rigning meira og minna allan tímann. Svo kemur mánudagur og þá skýst sólin fram og vindinn lægir og maður situr inni á kontór og missir af góða veðrinu. Þetta gerist trekk í trekk. Þetta minnir mann á það þagar maður var í prófum ár eftir ár í maí mánuði. Þá skein sólin og vorilmurinn var dag eftir dag í loftinu. Svo lauk prófum og þá kom rokið og rigningin. Hjörtur er á námskeiði í Leeds í UK. Hann var ekki hrifinn af borginni. Raunar var hann hissa á aðstæðum. Ekkert um að vera og allar búðir loka kl. 17.30. Hann verður þarna næstu fjóra daga. Annars fórum við Sirrý í "gamaldags" sunnudagsbíltúr með vissum afbrigðum þó. Nesjavallaveginn í stað Mosfellsleiðarinnar. Komum niður í Grafninginn þar sem drukkið var brúsakaffi að gömlum sið og svo haldið áfram og stoppað næst í Ljósafossvirkjun. Við stoppuðum þar og skoðuðum sýningu um virkjunina. Síðan fórum við niður á Selfoss, Stokkseyri, Bakkann og heim yfir Ölfusárósa og í gegnum Þrengslin til baka í Kópavoginn. Á Stokkseyri skoðuðum við hundaþúfuna hans Páls Ísólfssonar og Þuríðarbúð. Á Bakkanum skoðuðum við Rauða húsið, sem heitir reyndar Gunnarsshús nú eða gamla barnaskólahúsið eftir atvikum. Langafi minn átti þetta hús. Vorum með tvær ungar námsfúsar stúlkur með okkur.
PS. Fyrir þá sem ekki vita hvað er "gamaldags" bíltúr má geta þess að á sjötta og sjöunda áratugnum keyrðu borgarbúar gjarnan í rykmettaðri halarófu svokallaðan Þingvallahring um helgar. Upp Mosfellsdaglinn til Þingvalla. Niður Almannagjá í Þjóðgarðinn fram hjá Peningagjá með viðkomu í sjoppunni hjá Valhöll. Áfram hringinn niður Ljósafossveginn niður á þjóðveg og þaðan í bæinn oft með viðkomu í Hveragerði.

Engin ummæli: