föstudagur, 31. júlí 2015

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum



Þetta er helgin sem hugurinn dvelur við útihátíðir sem maður sótti hér áður fyrr. Einu sinni fór ég á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þetta hefur verið árið 1969. Ég var 16 ára þetta sumar. Fór með flugi til Eyja með nýtt tjald sem ég hafði keypt fyrir sumarhýruna. Þetta var einu orði sagt skelfileg reynsla, hávaða rok og grenjandi rigning. Ég fékk inni í heimahúsi síðari nóttina hjá henni Stínu frænku hans Árna Árnasonar en við erum systrasynir og jafn gamlir. Annars var fólki smalað í verbúðir niður í bæ sem ekki hafði svona aðstöðu. Ég man að nýja tjaldið mitt var mjög illa farið eftir þessa ferð, nánast ónýtt. Þjóðhátíðarlagið þetta ár heitir Draumablóm Þjóðhátíðar og byrjar svona:
"Ég bíð þér að ganga í drauminn minn
og dansa með mér í nótt
um undraheima í hamrasal
og hamingjan vaggar þér ótt."
Texti Árni Johnsen
Ekkert var nú dansað mikið í þessu óveðri og einhverjar skvísur sá maður sem sýndu gestinum lítinn sem engan áhuga. Eitthvað þvældist maður milli hústjalda og hlustaði á tjaldbúa skemmta sér. Ég lenti hinsvegar í sjómanni við einhvern dela þarna sem ætlaði aldrei að sleppa mér. Átti ekki roð í hann enda hann nokkrum árum eldri. Ég vissi ekki þá sem betur fer að ég ætti eftir að vinna við það í 30 ár að vera í stöðugum átökum við sjómenn um fiskverð og kjaramál. Þetta er líklega í fyrsta skipti af mjög mörgum sem ég flaug með Fokker út í Eyjar en það var líklega gömul DC 3 sem ég flug með heim. Aldrei hefur mig langað aftur á útihátíð í Eyjum, þótt síðar ætti ég eftir að kynnast fjölmörgum frá Vestmannaeyjum, meira að segja sjálfum textahöfundinum Árna Johnsen. Þeir Eyjamenn sem ég hef kynnst eru upp til hópa mikið sómafólk. Léttir og skemmtilegir en samt býr alvaran alltaf á bakvið, þéttir á velli og þéttir í lund mundi einhver segja. Góða skemmtun þið sem farið.

Engin ummæli: