föstudagur, 7. ágúst 2015

No sir to you...

Gísli Jón Hermannsson útgerðarmaður Ögurvíkur hf var þekktur fyrir góðan raddstyrk og gott orðfæri.  Þegar honum var mikið niðri fyrir var í raun óþarfi að ræða saman í síma. Nóg hefði verið að opna gluggana á skrifstofunni í Tryggvagötunni til að fá skilboð hans frá Týrsgötunni. Enginn hafði hinsvegar áhuga á því að allur miðbærinn hlustaði á samtalið.

Jantzen framkvæmdastóri fiskmarkaðarins í Bremerhaven sagði mér fyrir margt löngu þessa sögu af samskiptum við sínum Gísla Jón vegna sölu á fiskmarkaðnum þar, eftir að afar lágt verð fékkst eftir uppboð.

Jantzen markaðsstjóri vissi að hann fengi símtal og orð í eyra frá Gísla Jóni og beið spenntur og hugleiddi hvernig hann ætti að bregðast við skömmum hans. Hann ákvað að vera eins kurteis og formlegur og honum var frekast unnt.

Þegar Gísli Jón hringir er honum heitt í hamsi og fer mikinn. Jantzen nær að koma inn orði og orði til þess að útskýra stöðuna á markaðnum og byrjar hverja setningu á því að ávarpa Gísla Jón með „sir“. Þegar hann er búinn að segja þetta tvisvar þrisvar sinnum þagnar Gísli Jón skyndilega og segir svo: „I am no „sir“ to you. I wan´t my money back!!“ Þar með lauk samtalinu jafn skyndilega og það hafði byrjað. 

Engin ummæli: