þriðjudagur, 18. ágúst 2015

Taka notað í „fóstur.“



Við lifum á tímum stórmarkaðsvæðingar í húsgögnum og húsbúnaði eða eigum við að kalla það frekar IKEA væðingu heimilishaldsins? Í öllu falli hefur þessi þróun leitt til þess að fólk getur keypt ALLT til heimilishalds nú á dögum á sama stað, í sama stíl og líka á mjög hagstæðu verði. 
Þessi þróun leiðir til mikillar einsleitni og stöðlunar á heimilum. Breytingin virðist leiða til þess að fjöldi fólks hendir gömlum húsgögnum í stórum stíl. Um þetta vitnar m.a. Góði hirðirinn, Bland og svo Facebook síður. Hætt er við að mikil menningarverðmæti í gömlum húsgögnum og munum fari forgörðum.
Í ljósi framansagðs hefur það vakið vaxandi athygli sú vaxandi viðleitni fólks að gefa heimilinu karakter með því að kaupa gömul notuð húsgögn til þess að blanda saman við fjöldaframleiðsluna eða taka í „fóstur“ gamalt af þessum síðum.
Svipað fordæmi er þekkt úr öðrum greinum t.d. þegar plastbátavæðingin hófst og gömlu eikarbátarnir voru að detta úr rekstri. Þá fóru margir eikarbátar á brennu eða voru seldir til útlanda þar sem var fólk sem vildi varðveita þessa báta. Sem betur fer náðist að bjarga nokkrum eikarbátum frá því að vera eytt. Við njótum nú þessa björgunarstarfs með því að njóta þeirra í nýjum hlutverkum eins og hvalaskoðun. Nú við getum tekið gömlu Torfuna í Reykjavík og hvernig tókst fyrir árvekni fólks að standa vörð um þessa gömlu götumynd í borginni.
Sama vakning virðist vera varðandi eldri húsgögn, sem mörg hver eru smíðuð hér á landi. Vaxandi áhugi virðist vera fyrir því að taka í „fóstur“ gömul húsgögn sem fólk vill losna við. Nýleg stílista- og heimilissíða,http://stellavestmann.wix.com/stellar er til marks um þennan vaxandi áhuga. Þar er sagt frá því hvernig gömul húsgögn fá nýtt hlutverk við nýjar aðstæður á skemmtilegan hátt eftir að búið er að fara um þau mjúkum höndum og fríska upp á þær. Gömlu húsgögnin fá nýtt hlutverk og gefa í leiðinni heimilinu að hluta til a.m.k. íslenskan karakter. Auk þess sem þetta er oft á tíðum verndun á menningarverðmætum.

Engin ummæli: