sunnudagur, 23. ágúst 2015

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Sumarið 1979 vann ég í afleysingum við heimilshjálp í Mölndal. Eitt af verkefnum mínum var að snúa manni kvölds og morgna í rúminu. Hann var lamaður og hafði fengið slæm legusár. Hann var rúmlega 60 ára gamall þegar eitthvað óskilgreint varð þess valdandi að hann lamaðist allur fyrirvaralaust heima fyrir framan sjónvarpið. Hann átti hauk í horni sem var eiginkona hans sem var vakin og sofin yfir velferð mannsins. Í ljósi þess að ég var að hætta hafði hún rætt við félagsþjónustuna um hvaða þjónustu hún fengi í framhaldi. Eitthvað varð henni sundurorða við fulltrúann sem klykkti út með að það væri erfitt að útvega þeim aðstoð vegna þess að hún væri svo erfið. Svo sagði fulltrúinn að meira að segja Sveinn vildi ekki vera lengur hjá þeim. Auðvitað hringdi konan strax í mig á eftir og spurði beint hvort þetta væri satt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað mér þótti þetta miður því við vorum í ágætis tengslum. Hvers vegna fulltrúinn bar mig fyrir þessu er mér enn í dag hulin ráðgáta og þótti þetta ekki fagmannlegt hvorki þá né nú. Því rifja ég þetta upp til minna okkur á hvað maður getur fyrirvaralaust orðið með öllu ósjálfbjarga í þessu lífi og upp á aðra kominn með astoð.Jafnframt að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Engin ummæli: