sunnudagur, 26. júlí 2015

Sæból í Aðalvík.

Þetta er Sæból í Aðalvík, mynd sem systir mín færði mér í dag. Þarna liggja rætur okkar að hluta. Forfeður mínir áttu þessa jörð. Langafi minn Finnbjörn Hermannsson erfði hluta af jörðinni en seldi bróður sínum Guðmundi Hermannssyni sinn hluta árið 1943 fyrir 200 kr. Faðir minn hafði upplýst mig um þetta á árum áður, en fyrir forvitnissakir fórum við Valdimar Gunnar og skoðuðum gögn málsins hjá Sýslumanni á Ísafirði í síðustu viku þegar við áttum þar nokkra góða daga. Það er skemmtileg tilviljun að í sömu viku eftir heimsóknina til sýslumanns hringir Þórunn systir mín í mig og segist hafa fundið mynd af gamla Sæbóli á markaði og keypt hana handa mér. Hún hafði ekki hugmynd um að ég hafði verið í þessu grúski. Allavega á ég nú mitt Sæból, þótt það sé í formi þessarar fallegu ljósmyndar. Undir myndinni stendur 1981 og nafn langafabróður míns Jóns Hermannssonar og svo að sjálfsögðu nafnið á bænum. Jón Hermannsson var síðasti ábúandi á jörðinni. Langafi minn var elstur 10 systkina og bjó hann ásamt langömmu Elísabetu Guðný Jóelsdóttur á Skipagötu 7 Ísafirði. Hann vann lengi hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði og um tíma sem verslunarstjóri á Hesteyri hjá hinu Sameinaða íslenska verslunarfélagi.

Engin ummæli: