laugardagur, 29. nóvember 2008

Enn um efnahagslægðina

JP Morgan Ég var að lesa viðtal í Huvudstadsbladet, hinu virta finnska fréttablaði við greiningaraðila hjá J.P Morgan um efnahagslægðina sem nú skekur heimsbyggðina. Niðurstaða hans er að mannkynssagan geymi ekki lausir á síðari tíma kreppum. Hver efnahagslægð eigi sér sínar eigin forsendur. Hann skrifar ekki undir það að bandarískum húsbréfum sé einvörðungu um að kenna hvernig fór. Önnur skýring sé sú að almenningur um allan heim hafi farið óvarlega. Fólk hafi verið orðið svo vant því að hafa stöðuga vinnu og góðan aðgang að lánsfé til þess að kaupa það sem hugurinn girntist, sem virtist í góðu lagi um tíma. Fólk og fyrirtæki hafi þó ekki hugað að sér og orðið of skuldsett. Nú séu aftur á móti allir farnir að spara í heiminum, þegar fólk ætti í raun réttu að vera eyða peningum til þess að halda hjólum efnahagslífsins gangandi. Hjarðeðli fólks væri einnig orðið alþjóðlegt. Ríkisvaldið yrði nú að beita sér fyrir aðstoð við fjármálakerfið og hefja framkvæmdir til þess að koma hjólunum í gang að nýju. Þetta yrði til þess að pólitísk áhrif í samfélaginu mundu aukast til muna og efnahagslífið ennfrekar stjórnast af pólitískum sjónarmiðum - það væri ókosturinn. Aðspurður taldi hann að botni kreppunnar yrði náð næsta sumar en það yrði ekki staðfest fyrr en um þarnæstu áramót. Verkefnið hér á landi er að leysa bankakreppuna farsællega og ná niðurstöðu við lánadrottna, aðstoða fólk og fyrirtæki sem verða fyrir skakkaföllum og hefja viðreisn efnahagslífsins og hafa gaman af svo metnaðarfullu verkefni.

Engin ummæli: