þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Flytja af landi brott.

Í Gautaborg 1977. Við kynntust mörgum löndum í Svíþjóð, sem fóru þangað til þess að byrja nýtt líf á áttunda áratug síðustu aldar. Þeir voru ýmist komnir til að vinna eða fara í nám nema hvortveggja væri. Ég hef fylgst með nokkrum hópi í áratugi og þeim hefur allflestum farnast mjög vel, hvort heldur þeir snéru heim eða settust að í Svíþjóð. Nokkrir komu heim í byrjun níunda áratugarins og fóru út aftur í kreppunni 1983. Ég tel það eitt mesta gæfuspor okkar að hafa farið eftir stúdentspróf og numið þar í landi. Við vorum með eitt barn og hefðum ekki getað farið bæði í nám hér heima á þessum árum. Í Svíþjóð gátum við leigt íbúð, fengið pössun fyrir barnið, unnið á sumrin og þegar tækifæri gafst. Við byggðum okkur upp fyrir framtíðina og við kynntumst annarri menningu, þótt vissulega sé hún lík okkar um margt. Við sáum þó alltaf framtíðina fyrir okkur á Íslandi. Nú er rætt mikið um það að hugsanlega flytji margir úr landi vegna núverandi efnahagsvanda. Það getur verið heillaríkt spor fyrir þá sem fara með réttu hugarfari. Vilja leita nýrra tækifæra, breyta um umhverfi og kynnast menningu annarra þjóða. Ég tel að flestir muni hafa áhuga á því að koma aftur til Íslands - römm er sú taug o.s.fr. En aðstæður breytast og sumir koma ekki aftur. Þannig er því einnig varið með ýmsa félaga okkar. Þeir eru orðnir Svíar og verða það úr þessu. Ástæður þess eru margvíslegar m.a. makaval, vinna og fleira. Ég tel hinsvegar að þeir sem leggja á flótta vegna eigin hræðslu við ástandið verði áfram hræddir hvert svo sem þeir fara. Lykilinn að því að komast í gegnum erfiðleika af því tagi sem við stöndum nú frammi fyrir er að horfast í augu við vandann. Vinna sig í gegnum verkefnin skref fyrir skref, allt eftir aðstæðum hvers og eins. Sjái fólk ekki framtíð sína hér á landi, þá er að taka á því og velja sér nýtt land. Þeir sem fara verða þó að gera sér grein fyrir því að þeir eru og verða Íslendingar, þótt þeir flytji til annarra landa. Næsta kynslóð, börnin þeirra, ná því að aðlagast að fullu nýju landi. Nóg í bili. Kveðja.

Engin ummæli: