miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Ég var þar....

Í gærmorgun var ég mættur ásamt mörg hundruð manns á ráðstefnu Viðskiptaráðs Íslands sem haldin var til að fjalla um nýja peningamálaskýrslu Seðlabanka Íslands. Ræðumaður dagsins var formaður bankastjórnar SI og hélt hann mikla ræðu til varnar Seðlabanka Íslands og ábyrgðarþátt hans í falli 85% af fjármálakerfinu. Ræðuna má nálgast hér á heimasíðu Seðlabankans. Bankarnir voru einkavæddir fyrir sex árum. Þeir hófu að efla starfsemi sína og tóku til þess gríðarleg lán erlendis til að endurlána erlendis og hér innanlands. Ýmsir höfðu uppi varnaðarorð um að of geyst væri farið. Á þessi varnaðarorð var ekki hlustað eða þá að leikurinn var of langt genginn til þess að hægt væri að snúa við. Viðkvæðið var að bankarnir hefðu trausta stöðu. Svo kom fjárhagskreppan og feykti burtu mörgum bankastofnunum víða um lönd. Í byrjun október féll saman 85% af fjármálakerfi landsins eins og spilaborg. Nánar tiltekið allir þrír helstu viðskiptabankar landsins. Eftir stendur að margir "gíruðu" sig upp og tóku háar lánsfjárhæðir í erlendum myntum og voru með í leiknum. Skuldir fyrirtækja og heimila uxu óheyrilega. Um þetta mátti lesa í opinberum hagskýrslum. Víða er fólk og fyrirtæki í gríðarlegum vandræðum vegna skulda sem ekki ræðst við. Svo eru þeir sem vildu fara varlega og lögðu fé inn á sparnaðarreikninga í stað þess að eyða þeim. Nú eða fólk sem lagði aukalega inn á lífeyrisreikninga. Fólks sem vildi sýna ráðdeild, þrátt fyrir öll gylliboðin. Framundan eru erfiðir tímar sem varið verður í það að greiða skuldir og byggja upp að nýju. Eðlilega eru miklar tilfinningar tendar þessari stöðu. Fólk spyr hverju sé um að kenna, hverjir beri ábyrgð? Enn aðrir segja ekki benda á mig og svona henda menn boltanum á milli sín. Mistókst einkavæðing bankanna, mistókst eftirlit með inn- og útlánum bankakerfisins? Því verður ekki neitað hvernig sem á það er litið. Ábyrgð þeirra sem báru ábyrgð á rekstri bankakerfisins er mikil. Ábyrgð þeirra sem áttu að fylgjast með starfseminni er líka mikil. Ábyrgð stjórnvalda sem eiga að sjá til þess að meðalhófs sé gætt í öllu er varðar almannahagsmuni er mikil. Ábyrgð þeirra sem "gíruðu" sig upp í miklum lántökum og fóru óvarlega er mikil.Hluti af því að gera upp þessi mál er að fólk axli ábyrgð. Þeir sem áttu að gæta almannahagsmuna verða líka að axla ábyrgð. Þannig eru leikreglurnar í siðuðu réttarsamfélagi.

Engin ummæli: