miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Ná sér í útlenda aura

Fór í bankann í dag til að ná mér í útlenda aura. Veit ekki af hverju, en var svolítið niðurlútur við það að biðja um gjaldeyri á þessum síðustu og verstu tímum. Maður vill nú ekki íþyngja efnahag þjóðarinnar um of. Á miða í anddyrinu stóð að ég mætti fá fyrir 50 þúsund krónur. Þegar ég kom að stúkunni spurði gjaldkerinn mig hvað ég þyrfti mikið. Ég svaraði vandræðalega, ja hvað má ég fá mikið ég er að fara í helgarferð, hélt að þá fengi ég enn minna vegna þess að vinur minn hafði fengið 50 þúsund og hann sem var að fara í hnattferð. Hvað viltu mikið sagði gjaldkerinn brosandi. Nú má ég fá fullan skammt er ekki frekari takmörk? Búið að aflétta skömmtun, sagði gjaldkerinn. Jæja, heyrðu þá fæ ég svona 2000 danskar krónur, óþarfi að hamstra. Gjörðu svo vel sagði gjaldkerinn og rétti mér aurinn. Ég fór glaður út með nýja von um að nú færi þetta allt að lagast. Kveðja.

Engin ummæli: