laugardagur, 22. nóvember 2008

Sveitin milli sanda

Í vikunni fór ég á myndakvöld hjá Skaftfellingafélaginu í Reykjavík og horfði á sjónvarpsmyndir sem teknar voru árið 1967 í Öræfasveit. Magnús Bjarnfreðsson var þulur í myndunum og tók viðtal við ýmsa fyrirmenn sveitarinnar. Ég man þegar þær voru upphaflega sýndar í sjónvarpinu. Sérstaklega man ég eftir beltadrekanum honum Dreka og svaðilför ferðafélaga úr Ferðafélagi Kópavogs yfir óbrúðar jökulár. Myndirnar eru svarthvítar þannig þær ná ekki að lýsa stórfenglegri náttúru svæðisins. Rödd Magnúsar gefur frásögninni mikilfenglegan blæ sem fangar athygli áhorfandans. Viðtöl hans við menn um málefni sveitarinnar og áhrif þess á sveitinna að einangrun verði afnumin með bættum vegasamgöngum eru eftirminnileg. Meira að segja slíkar breytingar töldu menn geta haft neikvæð áhrif og þá aðallega varðandi umgengni. Eftirminnilegast er viðtal hans við Hannes Jónsson póst á Núpstað um svaðilför hans uppi á Skeiðarárjökli í miðju jökulhlaupi.

Engin ummæli: