miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Skálmað með skálmurum

Skálmarar Í kvöld lét ég loks verða að því að taka þátt í svokölluðum Skálmhópi, sem skálmar stóran hring í Elliðárdal á miðvikudögum og jafnvel laugardögum líka. Sögnin að skálma mun þýða á skaftfellsku kraftganga. Svo er Skálm einnig nafn á skaftfellskri á. Við vorum fimm að þessu sinni og gengum hratt í 80 mínútur eða þar um bil. Ég hafði áhyggjur af því í byrjun að ég mundi ekki ná að halda í hópinn því göngufélagarnir voru allir léttfetar, sem ekki blésu úr nös. Ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því vegna þess að öll enduðum við skálmið samtímis. Það er fátt betra en góður göngutúr til þess að hreinsa hugann og líkamann við stress. Óhætt að mæla með skálmi að ég tali nú ekki um í annarri eins náttúruperlu og Elliðárdalnum. Kveðja.

Engin ummæli: