mánudagur, 8. mars 2010

Móðurbróðir 80 ára afmælisminning.

Gunnar Axelsson
Móðurbróðir minn Gunnar Axelsson píanóleikari og kennari hefði orðið 80 ára í dag. Hann dó langt um aldur fram aðeins 54 ára að aldri. Gunni frændi eins og ég kallaði hann dagsdaglega kenndi mér á píanó einn vetur í Tónlistarskóla Kópavogs. Hann var þekktur í bæjarlífinu sem píanóleikari á Mímisbar í fjöldamörg ár. Minnisstætt þegar ég kom þangað einu sinni og heilsaði upp á hann með kærustunni. Hann heilsaði mér og sagði svo: "Hvað langar þig að heyra Svenni minn?" Ég bað hann að spila þemalagið úr Love story. Hann gat spilað hvað sem var af fingrum fram. "Ég spila þetta fyrir ykkur og svo skulið þið fara. Þetta er enginn staður fyrir ykkur." Önnur samskipti eru mér líka minnisstæð. Það var þegar hann var að skamma mig fyrir að vera ekki nógu æfður í spilatíma: "Svenni minn hvernig getur þú gert mér þetta og ég sem er frændi þinn." Svona eru nú eftirminnileg gömul uppeldisáhrif þessa ágæta móðurbróður míns sem var nágranni foreldra minna í áratugi. Blessuð sé minning Gunna frænda.

Engin ummæli: