föstudagur, 2. júlí 2010

Um gengisbundin lán.

Nú er Hæstiréttur Íslands búinn að kveða upp úr um að þessi gengisbundnu lán greidd í íslenskum krónum eru ólögleg. Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem hefur lesið lög nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu. Axel Kristjánsson lögfræðingur og sérfróður á sviði bankamála skrifaði grein í Mbl. 1. október 2009 um ólögmæti gengistryggingar. Niðurlag hennar er svona: "Á grundvelli ólöglegra lánaskilmála eru bankarnir því að sölsa undir sig milljónir og í sumum tilfellum tugi milljóna af einstaklingum og fyrirtækjum sem ráðgjafar bankanna ráðlögðu á sínum tíma að taka lán með gengistryggingu, án lagaheimildar. Nú ber ríkisstjórninni að leiðrétta þetta og láta bankana innheimta þessi lán í íslenskum krónum án gengistryggingar og gera lántakendum þannig mögulegt að greiða þau. Það á einnig að láta bankana endurgreiða lántakendum slíkra lána þann gengishagnað sem hefur þegar verið ólöglega tekinn af þeim.
Tap bankanna verður ekkert við slíka leiðréttingu annað en „tap“ ólöglegs gengishagnaðar vegna þess að bankarnir afgreiddu lánin í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðlum. Getur það verið að sérfræðingar hafi ekki bent ráðherrum hinnar hreinu vinstristjórnar á þessa staðreynd? Af hverju vill „hin hreina“ ríkisstjórn vinstriflokkanna ekki fara þessa leið?" Eftir lestur þessarar greinar var jafnvel ólöglærðum málið ljóst. Það er því óskiljanlegt af hverju stjórnvöld hafa ekki verið með viðbragðsáætlun við niðurstöðu Hæstaréttar. Svona er hvert málið látið rekast áfram en ómældum tíma varið í það að draga þrótt og dug úr hjólum atvinnulífsins og gera þá sem þar starfa tortryggilega. Ég segi nú bara sér grefur gröf þótt grafi.

Engin ummæli: