sunnudagur, 4. júlí 2010

Ég fór að hjóla með......

Hjólaði í austurátt upp Elliðaárdal áfram upp í Vatnsenda með fram vatninu og áður en ég vissi var ég kominn upp í Heiðmörk. Kynntist nýrri hlið á þessu fágæta útvistarsvæði í hjarta borgarinnar. Leiðin er sérstaklega falleg meðfram ánni. Veiðimenn voru að renna fyrir lax og/eða landa fiski. Fólk á gangi eða á hjóli eftir atvikum. Ég var svolítið óöruggur á "réttu" leiðina og veit núna að ofan Vatnsveitubrúarinnar á maður að vera norðan við Elliðaár. Þar er betri hjólastígur sem leiðir mann hraðar upp eftir. Satt best að segja hélt ég að hjólreiðakaflanum í lífi mínu væri lokið en það var ekki. Lét gera við gamalt hjól sem var inn í bílskúr. Ætlaði fara að henda því en kom við hjá viðgerðarmanni áður en ég fór með það á haugana. Ja, mér þykir þú auðugur maður ef þú ætlar að henda þessu hjóli sagði viðgerðarmaðurnn og bætti við að svona hjól leggi sig ekki undir 150 þúsund krónur nýtt. Síðan hafði hann einhver fagmannleg orð um að gírarnir væru með því besta sem þekktist. Þetta var nóg fyrir mig til þess að samþykkja 15 þúsund króna viðgerð á hjólinu. Nú hef ég þetta ágæta þriggja gíra hjól til reiðu. Eitt er víst ævintýraferðir mínar hér í nágrenninu eiga eftir að verða fleiri á næstunni.

Engin ummæli: