fimmtudagur, 27. maí 2010

Heillandi land

Ísland er heillandi land. Þetta hafa allir þeir fjölmörgu útlendingar sagt við mig sem ég hef hitt undanfarna daga, ja örugglega þrjátíu fjörtíu manns til að vera nákvæmur. Náttúran, höfuðborgin, Arnaldur Indriðason, Björk, Sigurrós eru nefnd meðal þess sem heillar. Þetta nærir sjálsmynd Íslendingsins í manni sem var orðin æði döpur satt best að segja. Maður finnur fyrir pínulitlu stolti sem er að laumast að nýju inn á auðan akurinn í sálartetrinu þar sem Íslendingsstoltið átti nokkuð stórar breiður áður, sérstaklega í samskiptum við þegna annarra landa. Nú er þetta að koma allt aftur með kalda vatninu. Vegurinn frá því ég ræddi við unga manninn í lestinni í Svíþjóð til Danmerkur fyrir tveimur árum hefur verið langur og strangur. Þá ætlaði ég ekki að fá mig til þess að viðurkenna hvaðan ég kæmi. Þá var stoltið verulega sært. Farið, mér fannst ég rændur því sem fólst í því að vera Íslendingur. Þeir sem töldu sig landsins bestu dætur og synir voru tekin í landhelgi reyndust hafa byggt "hús" á sandi - tómri sýndarmennsku. Þetta fólk hefur nú verið afhjúpuð. Sjálfdæmi í lífskjörum var græði og frekja sem átti aldrei að viðgangast. Samt var það látið viðgangast um tíma, þótt við vissum öll að þetta væri ekki rétt. Nóg í bili.

Engin ummæli: