föstudagur, 14. maí 2010

Austurför Söngfélags Skaftfellinga og Östergöka.


Við í Söngfélagi Skaftfellinga fórum austur á Klaustur á miðvikudagskvöldið ásamt sænskum gestakór, Östergök og héldum tónleika í Kirkjuhvoli á uppstigningardag. Þetta var um margt eftirminnileg ferð sem seint mun líða úr minni. Ægivald náttúrunnar var okkur ferðafélögum hugstætt strax í upphafi ferðarinnar. Þegar komið var austur að Kambabrún sást vel til öskumökksins úr Eyjafjallajökli. Stoppað var á Hellu og snæddur kvöldverður. Eftir því sem nær dró eldstöðvunum urðu áhrif eldgossins áþreifanlegri. Stórbrotnast var sjónarspilið við bæinn Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum en þar sást mökkurinn og spýjurnar úr fjallinu best. Minna var um öskufall á þessu svæði en hefur verið undanfarna daga en það ræðst af vindáttum hvernig askan dreifist. Þegar komið var á Kirkjubæjarklaustur hófust æfingar kóranna og stóðu þær fram undir miðnætti. Þá var farið að draga þrótt úr mörgum Svíanna sem höfðu verið á ferðinni frá því árla morguns. Á fimmtudeginum var farið austur að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. Mikill ís var á lóninu og áhrifarík sjón að sjá þessa stórbrotnu náttúru. Síðan var haldið á Klaustur og hófust tónleikar kóranna kl. 16.00 og stóðu tvo tíma. Að venju var nokkuð góð mæting á tónleikana. Sænski kórinn bæði söng og var með leikræna tilburði í flutningi sínum og verður flutningi hans gerð betri skil síðar. Við í Söngfélagi Skaftfellinga vorum með hefðbundinn flutning og fjölbreytilegt lagaval. Næst var farið á dvalarheimilið Klausturhóla og sungin nokkur lög fyrir heimilismenn þar. Sameiginlegur kvöldverður var á hótelinu á Klaustri og síðan hófst kvöldskemmtun kóranna. Lagt var af stað til Reykjavíkur á föstudeginum með viðkomu á dvalarheimilinu Hjallatúni í Vík í Mýrdal. Þá voru þeir tenórbræður í Söngfélagi Skaftfellinga Kristinn, Kjartan og Sigurgeir Kjartanssynir frá Þórisholti heimsóttir og þegnar veitingar í sumarhúsi þeirra. Við vorum kominn til Reykjavíkur upp úr fjögur eftir stífa keyrslu úr Reynishverfi.

Engin ummæli: