sunnudagur, 22. október 2006

Ættarmót Ingvars og Friðrikku.

Í Brekkutúninu var í dag haldið ættarmót Ingvars Pálmasonar skipstjóra og Friðrikku Sigurðardóttur. Hér voru komnir þeir afkomendur þeirra alls 30 sem staddir eru á landinu. Ýmsa vantaði sem eiga heima erlendis bæði í USA og Svíþjóð. Frá USA vantaði tvær dætur Pálma Ingvarssonar og son hans. Nú það er óþarfi að kynna fyrir bloggvinum mínum hverjir eru í Svíþjóð. Þetta tókst í alla staði vel og var hið ánægjulegasta ættarmót. Tilefni þess var heimkoma Pálma Ingvarssonar frá Seattle í USA í heimsókn hingað. Hann var hér síðast í maí 2004. Hér voru systkini hans Sigurður Ingvarsson og Auður "Didda" systir þeirra ásamt afkomendum. Lesa má um heimsókn hans í einum af fyrstu bloggum mínum í maí 2004. Heilmikið var spilað á hljóðfæri hússins og átti þar Emil Draupnir Baldursson stóran hlut að máli. Speki dagsins átti Hermann hennar Rannveigar en hann velti fyrir sér hugtakinu hljóðfæri. sbr. verkfæri, veiðarfæri, færi og svo framvegis. Hvaðan er orðið "færi" og hvað þýðir það í raun og hversvegna er hægt að nota það um svo margt. Þeir bloggvinir sem vilja leggja í púkkið varðandi þetta hugtak eru hvattir til þess. Á morgun er fyrsti vinnudagur eftir aðalfund. Það er í mínum huga n.k. áramót. Heilt ár í næsta fund og svo framvegis. Það er áægtis tilfinning. Það fer vel á því að fagna því í lok þessa pistils að í dag kom að landi fyrsti stórhvalurinn, langreyður, sem skutlaður er við Íslandsstrendur í tvo áratugi. Kristjáni vini mínum eru færðar bestu óskir í tilefni þessara tímamóta. Kveðja.

Engin ummæli: