mánudagur, 1. júní 2009

Blúsað upp um sveitir.

The Lame Dudes Í gærkvöldi á hvítasunnudag, á hátíð hins heilaga anda fórum við á tónleika upp í Fljótshlíð og hlýddum á hljómsveitina The Lame Dudes leika fyrir uppsveitunga Rangárvallasýslu. Þarna var góður hópur mættur til þess að njóta tónlistarinnar, þar á meðal fulltrúi hins þríheilaga. Ef almættið hefur skemmt sér jafnvel og við sem hlýddum á hljómfallið, þá hefur líka verið mikið fjör á himnum og því vel stofnað til þessara tónleika. Fátt hressir betur andann en lifandi flutningur tónlistar. Hljómsveitin endurflutti nánast öll lögin aftur undir dynjandi lófataki áheyrenda. Blúsinn á rætur sínar að rekja í trumbuslætti Afríku, striti og sliti bómullarakranna, þakkargjörð þeldökkra í guðshúsum og ölvímu á öldurhúsum í borgum og bæjum. Svo birtist hljómfallið öllum að óvörum í flutningi íslenskra manna á bjartri sumarnóttu, sem ná að túlka þessa dýpstu mótunarkrafta mannsins þannig að ekki verður betur gert og það með íslenskum formerkjum - hvílík snilld. Hvaðan koma þessir hæfileikamenn, hvert liggur leið þeirra? Allt á sinn tíma og sína stund svo mikið er víst að í gærkvöldi náðu þeir nýjum hæðum í túlkun sinni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Við viljum meira af þessu.

Engin ummæli: