sunnudagur, 28. júní 2009

Þrekaður og þakklátur - Sumarganga Skálmara

Rauð ský yfir Heklu. Ferðin að þessu sinni var að Rjúpnavöllum í Landssveit til þess að taka þátt í sumargöngu Skálmara (Félagar í Skaftfellingafélaginu). Þar var gist nóttina áður en ferðin hófst í skála. Þetta miðvikudagskvöld skaust ég upp í Landmannahelli til að selflytja bíl og koma matarbirgðum á staðinn. Þessi mynd var tekin af fjalli fjallanna, Heklu. Veðrið þetta kvöld á Landmannaafrétti var yndislegt, hlítt, heiðskýrt og stilla. Við vorum komin aftur að Rjúpnavöllum undir miðnættið.
Gestir við opnun gönguleiðar. Að morgni fimmtudagsins 25. júní var að lokinni opnunarhátið haldið af stað hina nýstikuðu Hellismannaleið. Meðal opnunargesta voru ýmsir ferðamálafrömuðir og forsvarsmenn Hellismanna. Göngufólk alls nítján félagar héldu af stað klukkan hálf tólf. Göngustjóri var Guðni Olgeirsson ásamt konu sinni Sigurlaugu Jónu Sigurðardóttur. Leiðin lá fyrst upp með Ytri - Rangá með Búrfell á vinstri hönd. Fyrsti áfanginn var um 17 km og var komið í Áfangagil um hálf sjöleytið. Næsta dagleið var úr Áfangagili í Landmannahelli um 23 km leið og lokaáfanginn var úr Landmannahelli í Landmannalaugar. Þennan fyrsta dag var mótvindur og rigning seinni hluta leiðarinnar. Margt fer í gegnum hugann á göngu sem þessari. Smátt og smátt víkur veraldleg hugsun um dægurmálin en spurningin, hversvegna ertu að leggja þetta á þig kallar á svar eftir því sem líður á gönguna. Mín niðurstaða er að maðurinn er að takast á við sköpunina sjálfa, móðir Jörð í öllu sínu veldi. Maðurinn skynjar fljótt að í smæð sinni á hann allt sitt undir þessari sköpun og hann er hluti af öllu verkinu. Efst í huga verður þakklætið fyrir að vera hluti af tilverunni og átökin kalla á lítillæti eftir því sem meira reynir á þrekið. Ég stoppa hér í bili meira síðar..... Kveðja.

Engin ummæli: