mánudagur, 29. júní 2009

Úr Áfangagili að Landmannahelli

Sýnishorn af landslagi á gönguleiðinni. Við Skálmarar og fylgifiskar vorum tilbúin í næsta áfanga stundvíslega klukkan tíu föstudaginn tuttuguasta og sjötta júní. Nú var að standa sig framundan var tuttugu og þriggja kílómetra ganga í Landmannahelli um margt erfiðan veg upp brekkur um dali niður hæðir og yfir skörð. Jarðvegurinn var víða sendinn og mjúkur. Lengst af héldum við hópinn en það dró sundur eftir því sem leið á. Leiðin um Dauðadal var ansi löng og svört ásýndum. Nú var sólin farin að hita mann upp. Ha er þetta Valagjá? Einmitt, áfram nokkur skref. Helliskvíslin hún er köld gruggug jökulá. Ah, vatnið búið. Ég hafði ekki rænu á að notast við jökulvatnið. Blessaður karlinn hann Gísli hennar Kollu sendi mér sandalana sína til þess að ég hefði mýkra undirlag þegar ég óð yfir. Jæja svo þetta er Lambafitjahraun, úfið apalhraun, sem Guðni göngustjóri var að tala um og rann í gosi 1913. Nú það er ekki lengri yfirferðin í hrauninu. Blessaðar rollurnar þær hafa fundið skemmstu leiðina í gegnum hraunið. Nei sko, blöstu ekki Hrafnabjörgin okkar Kolbrúnar við þarna þegar við komum í gegnum Lambaskarðið á hægri hönd. Þetta vissum við en ekki hin. Ég var aðeins hressari því Pétur hafði gefið mér sopa af Jegermeister til að þynna blóðið og það virkaði svona ljómandi vel. Áfram, áfram má ekki gefast upp. Helvítis flugubitin voru farin að plaga mig: "Sveinn handleggirnir á þér eru eins og kjötflykki," hrópaði Lauga upp, sem framan af var síðust og rak tryppin. Mér snarbrá þegar ég leit á handleggina alla í blóðugum bitum og mýið sötrandi úr mér blóðið í massavís. Ég var með flugnaskýlu fyrir andlitinu en hafði gleymt "antybite" vökva til að bera á mig og verjast mýinu á handleggjum. Það er enginn einn upp til fjalla með öllu þessu mýi svo mikið er víst. Mýið var út um allt og í þvílíku magni. Herbjarnarfellsvatn já, já það er nóg af vötnum hér. Er leiðin ekkert að styttast? Lauga hvað segir gps mælirinn góði? Úff ég verð að helga gönguna göfugu markmiði til að allar góðar vættir hjálpi mér. Í þágu lands og þjóðar? Farsæla lausn Icesave? Já,já það hlýtur að vera nógu göfugt. Klukkan var að verða sex enn var spotti í Landmannahelli. Ég var orðinn langsíðustur, en hún Kolbrún brást ekki. Með sínu hæga fasi var hún komin að hlið mér - hvetjandi og styðjandi. Hvað halda þau að ég sé að gefast upp? Það skal aldrei verða. Þreyttur þrekaður en ég var ekki búinn. Þegar komið var að síðasta haftinu milli mín og Landmannahellis birtust nýir aðstoðarmenn, Svandís kórfélagi og Gylfi maður hennar auk Kristins höfðu gengið til móts við hópinn. Gylfi bauðst til að taka pokann minn. Kristinn upplýsti mig ljúfmannlega að við mundum víkja aðeins af leið. Niður næstu brekku. Þar í dalverpinu beið okkar Geimstöðin. Við fengum salibunu í henni síðustu metrana. Þrautum mínum var lokið, fjörtíu kílómetra ganga var afstaðinn. Kappinn var keyrður í síðustu metrana í 1953 árgerð af Weabon jeppa. Nóg í bili meira næst. Kveðja.

Engin ummæli: