þriðjudagur, 23. júní 2009

Óstöðvandi framkvæmdagleði

Grein í Mbl. 1. apríl 2006. Svo er sagt að enginn hafi varað við.

Sveinn Hjörtur Hjartarson spyr hvað ríkisvaldið geri til þess að ná stöðugleika: "Mikilvægt er að gæluverkefni séu sett í bið á meðan þenslan er jafnmikil og raun ber vitni..."

MIKIL þensla einkennir nú íslenskt efnahagslíf. Ástæða þess er öðru fremur mikil bjartsýni í þjóðfélaginu sem birtist í kaupgleði og gríðarlegum framkvæmdum. Við nánast hvern einasta blett á höfuðborgarsvæðinu má sjá heilan skóg af byggingakrönum til marks um þá gríðarlegu fjárfestingu sem er í húsnæði. Svo eru stóriðjuframkvæmdir og álversbyggingar í áður óþekktum stærðarskala sem enn auka á þensluna. Á síðasta ári voru fluttar inn um 25 þúsund bifreiðar til að nefna annað dæmi meira og minna fyrir erlent lánsfé.
Seðlabankinn hefur það hlutverk með höndum að slá á þenslu og halda verðbólgu í skefjum. Það tæki sem hann hefur til þess eru helst stýrivextirnir sem hann hefur nú hækkað oftar en nokkur man í viðleitni sinni til þess að slá á þensluna. Árangurinn hefur því miður látið á sér standa. Ástandið hefur hinsvegar leitt til þess að erlendir aðilar hafa hafið útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum í þeim tilgangi að nýta sér þá háu vexti sem eru á slíkum bréfum. Þessi bréf stuðla aftur að enn frekari hækkun á genginu þegar fram í sækir og aukinni eftirspurn eftir erlendum lánum. Þetta hefur skapað útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum mikla erfiðleika. Minna fæst í krónum fyrir afurðirnar og þeim er gert erfiðara fyrir í samkeppni um starfsfólk og að mæta hækkandi innlendu kostnaði. Fróðlegt væri að vita hversu mikinn þátt hátt gengi íslensku krónunnar á í því að Bandaríkjamenn hafa gefist upp við að gera út herstöðina. Það skyldi þó ekki vera að krónan ætti stóran þátt í því.

Á meðan Seðlabankinn hefur leitast við að kæla efnahagslífið hefur ríkisvaldið, þ.e.a.s. sá aðili sem felur bankanum að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu, kynt svo um munar undir. Ekkert lát er á fréttum um hvert stórverkefnið á fætur öðru. Nú síðast var tilkynnt að fyrirtæki á vegum ríkisins og borgarinnar væri búið að gera samning við annað fyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar en byggingarkostnaður er áætlaður 12,5 milljarðar króna. Tengt þessu verkefni eru enn frekari framkvæmdir sem þess vegna geta kostað annað eins.

Myndir af skælbrosandi fjármálaráðherra birtast forsvarsmönnum útflutnings- og samkeppnisatvinnugreina í fjölmiðlum við undirskrift á nefndu gæluverkefni þeim til mikillar hrellingar. Þetta gerist á sama tíma og Seðlabankinn, Hagfræðistofnun og aðrir þeir er láta sig varða stöðu efnahagslífsins hvetja eindregið til aðhalds og samdráttar í útgjöldum hins opinbera. Hagfræðistofnun HÍ hefur reiknað út að með tæplega níu milljarða króna lækkun ríkisútgjalda megi lækka stýrivexti um 0,8%. Engin merki eru um að menn taki þessar ábendingar stofnunarinnar alvarlega.

Mikilvægt er að gæluverkefni séu sett í bið á meðan þenslan er jafnmikil og raun ber vitni og í ljósi yfirhlaðinnar verkefnastöðu í þjóðfélaginu í heild. Því miður eru engin merki um slíkan vilja. "Gleðin" heldur áfram með vaxandi hraða og enginn er maður með mönnum nema hann taki þátt í henni. Fyrr en síðar kemur að því að veislunni lýkur og ef óvarlega er farið er hætt við timburmönnum. Allar eru þessar framkvæmdir meira og minna fjármagnaðar með erlendum lánum. Við verðum að geta staðið undir þeim. Verði haldið óhikað áfram miklu lengur í þessum takti er næsta víst að mörgum verði lífið erfitt þegar fram líða stundir. Í ljósi þessa er afar mikilvægt að ríkisvaldið taki sér nú tak og fresti þeim framkvæmdum sem mögulegt er og styðji þannig við þá viðleitni Seðlabankans að slá á þensluna og skapa hér viðunandi starfsumhverfi fyrir undirstöðuatvinnuvegi okkar.

Engin ummæli: