þriðjudagur, 23. júní 2009

Skuldaaukningin áhyggjuefni

Viðtal í Mbl. 30. ágúst árið 2000!!! Sjá nánar það sem er leturbreytt. Þær voru þurrar kveðjurnar frá bankamönnunum eftir þessa greiningu. En hver hlustar á varnaðarorð þegar allt leikur í lyndi eða öllu heldur þegar veislan er rétt að byrja.

Skuldaaukningin áhyggjuefni
Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, bendir á að skoða þurfi skuldsetningu greinarinnar í samhengi við eignastöðu. Þannig hafi nýfjárfesting í fiskiskipum verið töluverð að undanförnu. Engu að síður sé skuldaaukning sjávarútvegsins áhyggjuefni. "Fjárfestingin hefur verið mikil og það hlýtur að endurspeglast í skuldastöðunni. Eins og horfur eru núna er það áhyggjuefni hversu afkoma sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur versnað. Kostnaður við útgerðina hefur vaxið gríðarlega að undanförnu. Olíukostnaður vegur þungt í rekstrargjöldum útvegsins en olíureikningur útvegsins hefur hækkað um tvo og hálfan milljarð á síðustu tólf mánuðum þó vissulega komi lækkuð hlutaskipti þar á móti. Almennt hækkandi kostnaðarstig í þjóðfélaginu skilar sér í dýrari aðföngum og þjónustu til útgerðar. Verðbólga upp á rúm 5% er með öllu óásættanleg fyrir sjávarútveginn. Þetta verðbólgustig er hærra en í öllum helstu viðskiptalöndum okkar. Það gengur hins vegar ekki að hver bendi á annan. Það þurfa allir að bregðast við verðbólgunni og draga úr tilkostnaði vöru og þjónustu. Þróun vaxtakostnaðar er eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Ég fæ ekki séð að allt það púður, sem sett hefur verið í uppstokkun á fjármálamarkaðnum hér á landi, hafi skilað sér í betri vaxtakjörum útlána eða innlána. Aukið frelsi á fjármálamarkaði síðustu ár hefur leitt til stóraukins framboðs á lánsfjármagni, á kjörum sem fá ekki staðist til lengdar. Hinn nýi fjármálamarkaður hefur einkennst um of af skammtíma gróðasjónarmiðum og glannaskap. Eftir stendur að fjármálaþjónusta her á landi er of dýr. Atvinnulífið getur ekki til langframa staðið undir þessum kjörum, það eitt er víst."

Engin ummæli: