miðvikudagur, 27. september 2006

Get bara ekki orða bundist

Í lýðfrjálsu landi er umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra mikilvægt. Lýðræðið er vel til þess fallið svo að allir geti tjáð skoðanir sínar og haft sitt að segja í leik og starfi. Þetta er langt í frá fullkomið kerfi. Þrátt fyrir allar hátíðaræður um gildi lýðræðisins sem byrja oft í sama dúr og þessi pistill, hafa langt í frá allir sömu aðstöðu til að koma skoðunum sínum á framfæri. Sumir eru í betri aðstöðu til þess að tjá sig í fjölmiðlum vegna þess að þeir hafa völd, eiga fé og fjölmiðla, eru þekktir einstaklingar, vinna við fjölmiðla, eru fjölmiðlavænir eða hafa "rétt" sambönd. Ómar Ragnarsson fréttamaður fellur í einn eða fleiri af þessum forréttindahópum. Hann hefur haft mjög góðan aðgang að fjölmiðlum. Þótt hann hafi nú komið út út úr "skápnum" varðandi skoðanir sínar á Kárahnjúkavirkjun, hefur það ekki farið milli mála í langan tíma að umfjöllun hans hefur ekki verið af hlutlægni. Maður hefur þó ekki látið það trufla sig mikið því það er væntanlega eins með mig og marga aðra Íslendinga að Ómar á rými í hjarta okkar. Hann er okkur mörgum kær fyrir þær ómetanlegu stundir sem hann hefur veitt okkur í sínum mörgum hlutverkum í gegnum tíðina. Maður hefur svona horft í gegnum fingur sér og hugsað sem svo að nú væri tilfinningar hans að bera rökhyggjuna ofurliði. Það breytir því þó ekki að síðasta útspil hans um að Kárahnjúkavirkjun verði ekki tekin í notkun er svoleiðis út í hött að mér er fyrirmunað að skilja hvert hann er að fara. Svona hugmynd yrði hún að raunveruleika mundi valda okkur gríðarlegu efnahagslegu tjóni og skerða lífskjör okkar til lengri tíma. Mér er til efs að þeir sem samankomnir voru á Austurvelli í gær séu tilbúnir að bera það hundraða milljarða tjón sem þjóðfélagið stæði uppi með. Þetta útspil Ómars er að mínu áliti því miður dæmi um varasama og jafnvel hættulega hugmynd sem fær umfjöllun í fjölmiðlun í þveröfugu hlutfalli við efnisinnihaldið. Svona hugmynd minnir okkur á að við verðum ávallt að halda dómgreind okkar og vöku. Við getum ekki treyst á hlutlægni fjölmiðla til þess að standa vörð um almannaheill í skoðanaskiptum um mikilvæg málefni. Ég held ég láti þetta duga í bili. Kveðja.

Engin ummæli: