laugardagur, 9. september 2006

Strandarkirkjuganga

Strandarkirkja Í dag gengu afkomendur Helga Ingvarssonar fyrrum yfirlæknis á Vífilsstöðum hina árlegu göngu sína á Strandarkirkju í Selvogi. Ég hef oft gengið með þeim þessa göngu en nú gat ég ekki gengið með vegna hnéskaða, sem ég er ekki búinn að jafna mig á að fullu. En ég var í liðinu sem keyrði og sótti. Það jafngildir því að vera "göngumaður" að vera í þessu þjónustu hlutverki. Gangan tekur rúma fjóra tíma frá Grindarskörðum. Í Strandarkirkju tók ég að mér að lesa kafla í ævisögu Helga um þessar göngur hans. Þar segir m.a.: "Alkunnugt er, að trúaðir menn velji sér ýmsa staði, sem þeir telja helgari en aðra,og ferðast þangað sér til sálubótar. Nægir þar að nefna Íslendinga, sem gengu forðum daga suður til Rómaborgar. Helgi átti sér slíkan átrúnaðarstað. Hann gékk að Strandarkirkju ekki sjaldnar en þrjátíu sinnum í þeirri trú, að sú suðurganga yrði sér og sínum til heilla.....() Trú Helga á Strandarkirkju kemur fram í vísum hans í dagbók dóttur hans frá árinu 1939:

Ef hennar gagn í góðri trú
með gjöfum viltu styrkja
þér veitir heill og höppin drjúg
heilög Strandarkirkja."

Stórhöfði Á fimmtudaginn fór ég ásamt stjórn LÍÚ út í Vestmannaeyjar þar sem haldinn var stjórnarfundur og útvegsbændur í Eyjum voru heimsóttir. Þetta var hin skemmtilegasta ferð og meðal tilbreytinga dagsins var heimsókn til vitavarðarins í Stórhöfða, boð á skrifstofur og heimili útvegsmanna og skoðunarferð um Heimaey. Allir kannast við þann vita úr veðurlýsingum fjölmiðlanna. Útsýnið er gríðarlega mikið, þótt það sjáist nú ekki á þessari mynd.

Engin ummæli: