laugardagur, 16. september 2006

Í leik og starfi.

Við Sirrý fórum í 30 ára afmæli Félagsvísindadeildar í gær. Það var haldið í veislusölum í Lækjargötu. Held að þetta sé húsið sem Hið íslenksa bókmenntafélag lét byggja. Þetta var hin veglegasta veisla og margir kunnir félagsvísindapostular að fagna þessum tímamótum. Þar má nefna fremstan í flokki sjálfan forsetann. Þarna var margt skrafað og maður varð margs vísari af þessum vettvangi. Átti samtal við einn virtan félagsvísindamann og ætla ekki að rekja það að öðru leyti en því að við ræddum um gildi viðurkenningarinnar. Að vera einlæglega viðurkenndur fyrir störf sín og framgöngu af þeim sem eru manni næstir. Þetta skiptir okkur öll svo gríðarlegu máli. Samt sem áður erum við spör á að hrósa hvort öðru þótt tilefnin séu mörg. Samanber að enginn sé spámaður í eigin föðurlandi. Ég held við ættum að hafa þetta huga og muna að hvetja hvort annað meira í leik og starfi. Nú í aðra sálma. Stjórnmálaumræðan mun fara vaxandi á næstu mánuðum og verður spennandi að sjá hvernig hún muni þróast hér á landi. Ég hef aðeins fylgst með umræðunni í Svíþjóð. Kosningabaráttan þar er í algleymingi. Göran Persson virðist eiga í vök að verjast og honum er fundið það helst til foráttu að hann hafi fjarlægst alþýðu manna og skynji ekki lengur kjör hennar. Hann sé orðinn herragarðseigandi og vilji frekar deila geði með auðmönnum en alþýðu manna. Hann verst þessum árásum með því að segja að Svíar hafi framar öðrum þjóðum staðið dyggan vörð um jafnaðarmennskuna og náð góðum árangri. Nú er að sjá hver verður niðurstaða sænskra kjósenda. En þau eru eigi að síður nokkur hneykslismálin tengd ofurlaunum forstjóranna sem nú eru þar til umfjöllunar. Græðgin hefur náð sterkum tökum á Vesturlöndum, auðhyggja er grímulausari en áður og virðist drifin áfram af væntingum um mikinn ávinning á skömmum tíma. Í anda þess að "the winner takes it all." Baráttan í pólitíkinni mun eins og alltaf snúast fyrst og fremst um skiptingu lífskjara. Hugsið ykkur það eru yfir 400 000 þúsund manns án atvinnu í Svíþjóð og þá er ekki tekið með dulið atvinnuleysi sem a.m.k. tvöfaldar þessa tölu. Svíar eru um níu milljónir manna. Ég held að við sem tilheyrum velmegunarkynslóðum eftstríðsáranna (1946 - 1960) höfum misst sjónar af mikilvægum lífsgildum og börnin okkar sem nú eru að hasla sér völl í atvinnulífinu hafi óraunhæfa sín á það hvað þurfi til þess að koma undir sig fótunum fjárhagslega. Þar dugi að verða sér út um skjótfenginn gróða og lifa svo um alla framtíð í góðum efnum. Margir virðast ekki gera sér grein fyrir því aðfyrir allflest okkar er það linnulaus barátta að koma sér upp þaki yfir höfuðið og láta fjárhaginn ekki fara úr böndum. Einn flippferð í kaupstuði getur bundið fólk í áraraðir á fjárhagslegum klafa. Þar fyrir utan leysa peningar langt í frá allar þarfir manna. Þeir geta meira að segja verið til ógagns. Þótt ekki ætli ég að gera lítið úr því að það geti komið sér vel að eiga sparifé þegar þess er þörf. Læt þetta duga. Kveðja.

Engin ummæli: