laugardagur, 21. apríl 2018

Guðmundur Þorbjörnsson, minning


Í gær var ég við útför Guðmundar Þorbjörnssonar útgerðarmanns, oft nefndur Guðmundur í Gjögri. Ég kynntist Guðmundi í starfi mínu fyrir samtök útvegsmanna. Hann var um áratugi einn af þeim, sem reglulega kom í heimsókn á skrifstofuna í Hafnarhvoli. Guðmundur var hógvær í allri orðræðu, en hann hafði skýra sín og ákveðnar skoðanir. Umræðuefnið var oftar en ekki rekstarskilyrði útgerðar, fiskveiðistjórnun, menn og málefni. Eitt af fyrstu verkefnum mínum í þjónustu útvegsmanna var að fara í gegnum skynsemi þess að kaupa þrjú ný glæsileg skip árið 1986 frá Ulstein í Noregi. Sumum þótti þetta mikið glapræði og höfðu áhyggjur af því að viðkomandi aðilar færu allir lóðbeint á hausinn. Guðmundur var í þessum hópi með nýjan Hákon ÞH 250, Ármann Ármannsson með Helgu II RE 373 og Pétur Stefánsson með Pétur Jónsson RE 69. Minnist sérstaklega orðræðu okkar Guðmundar vegna áhyggju manna af þessum kaupum og glettni hans vegna þess. Til að gera langa sögu stutta áttu þessi skip eftir að reynast mjög vel og er tilkoma þeirra hluti að nýrri framfarasókn í sjávarútvegi eftir gríðarlega niðursveiflu í upphafi níunda áratugar síðustu aldar. Það voru ekki margir í sjávarútvegi sem gátu sýnt jafn glæsilega ársreikninga og Gjögur hf á þessum árum. Fyrirtækið var alla tíð rekið af mikilli ráðdeild á Tómasarhaga, þar sem þau Guðmundur og Auðbjörg eiginkona hans bjuggu. Fyrir þrettán árum vorum við Sirrý ferðafélagar Guðmundar og Auðbjargar í tíu daga ferð um mormónaslóðir í USA. Við áttum þarna nokkra góða daga með þeim hjónum og eftir það góða endurfundi á samkomum útvegsmanna. Fyrir það viljum við þakka. Blessuð sé minning Guðmundar.

Engin ummæli: