föstudagur, 6. apríl 2018

Sverrir Hermannsson, minning

Ég kynntist Sverri Hermannssyni fyrst sem iðnaðarráðherra. Var í teymi sem ráðið var til þess að fara í gegnum rekstur nokkurra stofnana, sem heyrðu undir ráðuneyti hans. Hann fylgdist náið með framvindu verkefnisins og hlýddi okkur reglulega yfir um frangang þess. Honum var ekki sama hvernig skattpeningum almennings var varið á hans vakt. Þetta var eftirminnilegur tími og lærdómsríkur, sérstaklega áfangafundir með ráðherranum þar sem farið var yfir stöðuna. 
Hann vissi strax hverra manna ég var þegar ég kynnti mig, en þetta voru ekki þannig fundir að við værum að blanda fjölskyldutengslum inn þá umræðu. Sá hluti samskiptanna fór í gegnum föður minn á síðari stigum og þeir höfðu einhver orð um þá tilviljun að ég væri að vinna fyrir Sverri og dóttir hans og pabbi væru vinnufélagar.
Faðir minn og Gréta Lind Kristjánsdóttir eiginkona Sverris voru systkinabörn. Þau voru jafnaldrar og æskufélagar, alin upp á Ísafirði. Milli þeirra var alltaf mikill frændkærleikur, þótt leiðir skildu á unglingsárum og þau færu í sitt hvora áttina.
Síðast hittumst við Sverrir í jarðarför bróður hans Gísla Hermannssonar útvegsmanns. Hann minntist heimsóknar minnar og foreldra minna í sumarhús þeirra hjóna á Grund í Skutulsfirði.
Þessi heimsókn var mér minnisstæð vegna þess að ég sá þá föður minn í svolítið nýju ljósi. Hann sem var oftar en ekki frekar til baka þegar hann heilsaði fólki hafði enga slíka tilburði er hann heilsaði frænku sinni, sem heilsaði „Dengsa frænda“ af mikilli hlýju og væntumþykju.
Minnisstæður er einnig fundur minn með Sverri sem bankastjóra Landsbankans og starfsmönnum hans um stjórn fiskveiða. Það var tekið til þess í höfuðstöðvum LÍÚ að hann skyldi sýna frummælanda þá virðingu að koma á þennan fund og hlýða á og spjalla um þessi mál.
Sverrir Hermannsson var litríkur stjórnmálamaður. Persónutöfrar hans voru miklir og þar sem hann kom var nærvera hans sterk, röddin þróttmikil og mælska hans og orðanotkun kynngimögnuð. Eftir þessum glæsilegu hjónum var tekið hvar sem þau fóru. Blessuð sé minning þeirra beggja.

Engin ummæli: