þriðjudagur, 7. júní 2005

Kveðjustund.

Jensína amma var kistulögð í Fossvogskapellu í dag. Hún lést á sunnudaginn var á Hrafnistu. Athöfnin var hlýleg og persónuleg. Sr. Hjörtur stýrði athöfninni á látlausan og virðulegan hátt eins og hans var von og vísa. Jarðarförin mun fara fram næstkomandi þriðjudag í Áskirkju.
Jensína amma var á 99unda aldursári og því búin að lifa löngu lífi og farsælu þótt vissulega hafi hún fengið sinn skerf af andstreymi. Hún var hinsvegar sterkur einstaklingur sem lét ekki buga sig. Hún hafði mikinn viljastyrk, lífsgleði og var glaðsinna og hláturmild. Hún kenndi okkur að það eru ekki árin sem telja heldur hugarfarið, lífsleiknin, kærleikurinn, jákvæðnin og góða skapið sem skipa miklu í lífinu hvernig svo sem stendur á. Yndi hennar var að ferðast. Hún ferðaðist eins mikið og hún gat um sína dag og heimsótti fjölmörg lönd þar á meðal Kína. Síðustu ferð sína fór hún til útlanda þegar hún var 92 ára með ferðafélögum sínum til margra ára. Þeir buðu henni til Parísar til þess að heiðra hana. Nú er hún lögð af stað í sína hinstu ferð úr þessu jarðríki örugglega vel birg því veganesti sem hún kappkostaði að hafa ætið með í för í þessu jarðríki. Blessuð sé minning hennar.

Engin ummæli: