fimmtudagur, 10. janúar 2008

Stjörnubjartur næturhiminn.

Það er stjörnubjartur næturhiminn hér í Fossvogsdal, stillt og gott veður úti. Útsýni til Perlunnar með besta móti. Hún slær rólega taktinn í myrkrinu með hvítu og grænu ljósi flugvitans. Topphúfan á Borgarspítalanum með rauðum skúf sínum er vel upplýst en víða slökkt á hæðum. Vonandi merki um rólega nótt á sjúkrahúsinu. Útvarpshúsið er að vanda vel upplýst með lag á fóninum og fréttapistil í bígerð. Húsin kúra í dalnum og ljósastaurarnir aðgreina göturnar. Nóttin er ung og falleg og allt með kyrrum kjörum. Það sama er ekki hægt að segja um fjármálamarkaðinn sem hefur tekið sínar stærstu og alvarlegustu dýfur þessa fyrstu daga janúar mánaðar. Miklir stormsveipir hefur leikið markaðinn illa undanfarna daga, sem helst má líkja við fárviðri. Vonandi er að það versta sé yfirstaðið og markaðurinn jafni sig. Sagði ekki karlinn á gula bílnum hér um árið að maður ætti að "sell high og buy low". Samkvæmt því ættu að vera til staðar mikil og góð kauptækifæri á markaðnum og vonandi sem flestir selt þegar markaðurinn var "high" og því nægt fjármagn til tækifæriskaupa. Hingað komu í kvöld Valdimar, Stella og Lilja. Hjörtur og Jóhannes Ernir eru hér í heimsókn. Annars lítið að frétta héðan. Hjólin eru farin að snúast á fullu. Sigrún og Sirrý byrjaðar í skólanum og utanlandsferð hinnar síðarnefndu á döfinni í næstu viku.

Engin ummæli: