fimmtudagur, 24. janúar 2008

Traust eða traust staða er sitthvað.

Það er dimmt í Fossvoginum í kvöld. Skyggni er lítið sem ekkert vegna snjókomu. Sér vart í næstu hús. Hvað þá yfir til höfuðborgarhlutans í dalnum. Þetta voru nú annars meiri skrílslætin í ráðhúsinu í dag. Þeim til skammar sem stóðu fyrir þessum ólátum. Nú er handboltinn búinn og óþarfi að ergja sig á honum. Ég viðurkenni að þetta er ágætis dægrastytting í skammdeginu að fylgjast með svona móti. Einhver viðsnúningur varð á fjármálamarkaðnum í dag. Vonandi að botninum þar sé náð í bili. Þetta eru hrikalegar fréttir af franska bankanum, Societe Generale sem upplýsti að einn starfsmaður hefði orðið þess valdandi að bankinn hefur tapað 5 milljörðum evra(460 milljörðum króna). Svona frétt getur haft víðtæk áhrif á fjármálamarkaðinn á næstunni. Þetta minnir á hneykslið í Beringsbanka hér um árið. Fjármálastofnanir byggja fyrst og fremst á trausti. Undanfarið hefur maður heyrt frá höfuðstöðvum bankanna að staða þeirra sé svo og svo traust. Þeir hafi mikið lausafé til starfseminnar í langan tíma þrátt fyrir erfiðleika við endurfjármögnun vegna miklu hærra vaxtaálags. Það sem þeir þurfa hinsvegar ávallt að hafa að leiðarljósi er hvort starfsemi þeirra hafi nauðsynlegt traust viðskiptavina. Viðskiptavinirnir horfa til fleiri þátta en lausafjárstöðu og árshluta- og ársuppgjöra. Þeir horfa líka til þess hvort starfsemi bankanna sé trúverðug. Telji viðskiptavinir svo vera eiga bankarnir traust þeirra. Það er annað og mikilvægara traust heldur en sú trausta staða sem bankarnir keppast við að auglýsa. Það er ef til vill táknrænt fyrir þessa hugleiðingu að nú hefur stytt upp og ljósin í höfuðstaðnum blasa við. Kveðja.

Engin ummæli: