þriðjudagur, 23. september 2008

Öfundsverðar langtímahorfur

Byrjaði daginn á að fara á ráðstefnu Landsbankans varðandi hagspá (hér má nálgst skýrslu LÍ) þeirra frá 2008 til 2012. Ágætis yfirferð Halldórs Kristjánssonar bankastjóra og hagfræðinga bankans yfir stöðu efnahagsmála. Þótt útgangspunktur þeirra væri að leggja áherslu á hið jákvæða í langtímahorfum efnahagsmála var undirtónninn alvarlegur. Fjármálageirann sögðu þau í djúpri kreppu. Ástandið hefði ekki verið jafn slæmt síðan 1929 í kreppunni miklu. Erfiðir tímar færu í hönd. Mikilvægt væri að leggja áherslu að halda fullri atvinnu. Svigrúm til launahækkana væri ekki fyrir hendi. Svolítið hjáróma að vísu í ljósi þess hverjir hafa keyrt upp launin undanfarin ár. Bankarnir yrðu að endurskoða lánareglur sínar og starfshætti frá grunni. Mikið hefði farið úrskeiðis og mörgum grunnreglum í lánastarfsemi hefði verið kastað fyrir róða undanfarin ár - illu heilli. Nú væri að búa í haginn fyrir þessa kreppu sem væri rétt að byrja. Bankastjórinn sagði að nú þýddi ekkert að keyra með bakljósin það yrði að halda áfram og þýddi lítt að dvelja við það sem liðið væri. Er það svo? Ég held að málið sé ekki svo einfalt. Það er nauðsynlegt að fara yfir þessa stöðu og reyna að læra af henni og skilja hana. Í þeim efnum er mikið verk óunnið.

Engin ummæli: