föstudagur, 19. september 2008

Kóngsrottan

Ég las einu sinni bók með þessu nafni. Hún fjallaði um hermann sem lifði eins og kóngur í japönsku herfangelsi við ömurlegustu aðstæður þar sem félagar hans dóu umvörpum. Viðskiptahæfileikar hans nutu sín einstaklega vel þarna í fangelsinu. Einn daginn opnaðist fangelsishliðið, stríðinu var lokið og hann var ekki lengur kóngurinn. Samfangar hans sniðgengu hann og enginn þeirra vildi kannast við hann. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér í dag þegar ég var að lesa um þessa kauphallarmenn sem hafa stundað skortsölu á fjármálamörkuðum. Þeir fundu gróðaleið með því að veðja á vandræði fjármálamarkaðarins, fengu hlutabréf að láni og seldu þau í von um að þau mundu halda áfram að lækka. Kaupa síðan hlutabréfin aftur lægra verði skila þeim og hirða mismuninn. Auðvitað hafa þeir svo talað markaðinn niður til þess að græða sem mest á niðursveiflunni. Þetta er áleitin siðferðileg spurning hvort þetta sé í lagi. Segir ekki að velgengni byggist á því að sjá tækifærin í hverri stöðu en ekki vandamálin? Mér dettur aðeins í hug hin eftirminnilega setning fyrrum kennara míns, Vilmundar Gylfasonar: löglegt en siðlaust.

Engin ummæli: