miðvikudagur, 17. september 2008

Leitað að sökudólgum

Lækkun útskýrð. Í nýlegu eintaki af blaðinu Money sem mér áskotnaðist í síðustu viku er að finna 21 ráð til örvæntingafullra fjárfesta. Eitt af ráðunum er að anda djúpt og hætta að horfa á CNBC og aðrar fjármálarásir sjónvarpsmiðlanna. Ég horfi nú á þættina hennar Maríu á CNBC fyrir það og ætla að gera það áfram. Svona er nú stemmingin á Wall Street eftir daginn í dag. AIG stærsta tryggingafélag í heimi komið í gjörgæslu bandaríska stjórnvalda. Er nema von að fólk spyri sig um allan heim hvað komi næst.
Evrópa í rauðum lit. Evrópa er engin undantekning. Fjármálamarkaðir í álfunni eru meira og minna í mínus vegna fjármálakreppunnar og fátt sem bendir til þess að jafnvægi sé að nást í fjármálaheiminum. Sagt er frá tveimur stórum bönkum á Stóra- Bretlandi sem verði líklega sameinaðir HBOS og Lloyds TSB. Fjörtíu þúsund bankamenn til viðbótar gætu misst vinnuna vegna þessa.
Ekki benda á mig. Nú er leitað að sökudólgum og augu umheimsins beinast að þessum matsfyrirtækjum sem hafa verið að gefa ríkissjóðum, bönkum, fyrirtækjum og skuldabréfum háar einkunnir undanfarin ár. Þessi framkvæmdastjóri hjá Standard and Poor, Jay Drhu var spurður í dag hvort hann væri enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að gefa húsnæðisskuldabréfunum í Bandaríkjunum AAA einkunn í ljósi stöðunar. Það var sama hvað þeir gengu á hann fréttamennirnir ekki fékkst hann til að viðurkenna að Standard og Poor hefðu gert mistök. Vinnubrögð þessara matsfyrirtækja hljóta að koma til alvarlegrar skoðunar í ljósi reynslunnar. Þau hafa setið beggja megin borðs of lengi og maður hefur það á tilfinningunni að þar megi rekja hluta af hinum tæknilega vanda. Ásamt því að dæma fjármálaafurðir fjármálastofnana og fyrirtækin sjálf hafa þau verið að bjóða eigin ,,fjármálaafurðir" til sölu á sömu aðilum.
Ég er ,,góði" strákurinn. Myndir þú kaupa notaðan bíl af þessum manni í ljósi reynslunnar? Hætt er við að það taki umheiminn langan tíma að treysta matsfyrirtækjunum að nýju. Það getur þessvegna farið fyrir þeim eins og A Anderson endurskoðandanum hér um árið vegna gjaldþrots Enrons orkurisans. Anderson endurskoðendur hurfu eins og dögg fyrir sólu fyrir þá sem ekki vita það. Einn er sá þáttur sem ekki hefur verið fjallað um en það er hvernig stóð á því að allt þetta fjármagn komst í umferð. Er það stefna bandarískra stjórnvalda undir handleiðslu Allans Greenspans undanfarin áratug sem er að valda þessu? Enn vantar greiningu á því. Ljóst er að stjórnvöld vestanhafs og austan bera mikla ábyrgð á því hvernig komið er. Við vitum að hlutverk banka er að ávaxta fjármagn og lána það. En af hverju lána þeir stjarnfræðilegar upphæðir til lántakenda sem þeir vita að geta aldrei greitt lánið? Þetta gera þeir ekki nema að það sé mikið fjármagn í pípunum sem þeir eiga og verða að koma í vaxtaberandi hlutverk til að standa sig. Enn og aftur hvaðan kom þetta fjármagn?

Engin ummæli: